Það var tilkynnt seint í gærkvöldi að hinn mjög svo efnilegi Cole Campbell hefði ákveðið að spila frekar fyrir Bandaríkin en Ísland. Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, segir þetta auðvitað svekkjandi en hann ber virðingu fyrir ákvörðuninni sem hafi líklega ekki verið auðvelt fyrir Cole að taka.
Campbell er nýlega orðinn 18 ára gamall og hefur fengið samþykki hjá FIFA um að skipta úr íslenska landsliðinu yfir í það bandaríska.
Campbell er nýlega orðinn 18 ára gamall og hefur fengið samþykki hjá FIFA um að skipta úr íslenska landsliðinu yfir í það bandaríska.
Cole er alinn upp í Bandaríkjunum en er með íslenskan ríkisborgararétt. Hann flutti til Íslands árið 2020 og spilaði með FH og Breiðabliki áður en hann gekk í raðir þýska stórliðsins Borussia Dortmund.
Campbell á sjö leiki og tvö mörk að baki fyrir U17 ára landslið Íslands. Hann er sonur Rakelar Bjarkar Ögmundsdóttur sem var kjörin besta fótboltakona Íslands um aldamótin. Rakel er fædd í Bandaríkjunum en á tvo íslenska foreldra. Rakel skoraði sjö mörk í 10 A-landsleikjum og raðaði inn mörkunum með Breiðabliki í efstu deild kvenna, en sleit krossband og lagði skóna á hilluna þegar hún var aðeins 25 ára gömul. Faðir hans er bandarískur.
„Þetta er bara hans ákvörðun, og hans fjölskyldu. Við getum svo sem ekkert aðhafst í þessu. Þetta er algjörlega þeirra ákvörðun og við virðum hana," segir Jörundur Áki við Fótbolta.net en er þetta ekki svekkjandi?
„Jú, auðvitað er það þannig. En svo er það líka þannig að þú verður að virða þessa ákvörðun. Hann og hans fjölskylda hefur ábyggilega hugsað um þetta í góðan tíma og þá þýðir ekkert að vera velta sér mikið upp úr því. Við óskum honum alls hins besta og vonandi gengur honum sem best hjá sínu félagsliði og með landsliðinu í framtíðinni."
Það verður áhugavert að fylgjast með framgangi Cole með bandaríska landsliðinu og Borussia Dortmund á næstu árum.
Athugasemdir