Vefsíðan vinsæla transfermarkt heldur uppi ýmsum upplýsingum úr fótboltaheiminum og er búið að setja saman lista yfir bestu miðvarðapörin í ensku úrvalsdeildarsögunni.
Aðeins miðvarðapör sem hafa spilað 50 úrvalsdeildarleiki eða fleiri saman koma til greina og eru tvö nútíma miðvarðapör sem komast fyrir á listann. Þar er um að ræða William Saliba og Gabriel, sem hafa spilað 66 úrvalsdeildarleiki saman og fengið að meðaltali 0,82 mörk á sig á leik. Þeir eru í sjöunda sæti yfir þau miðvarðapör sem hafa fengið fæst mörk á sig í sögu deildarinnar.
Harry Maguire og Victor Lindelöf, sem eru samherjar hjá Manchester United, eru í sextánda sæti listans með 1,08 mörk fengin á sig á leik yfir 86 leiki saman í hjarta varnarinnar. Þeir munu þó ekki spila marga leiki saman í viðbót þar sem Matthijs de Ligt og Lisandro Martinez eru einnig með í baráttunni um byrjunarliðssæti.
Besta miðvarðapar úrvalsdeildarsögunnar kemur úr röðum Arsenal en það mynda Sol Campbell og Kolo Touré, sem voru partur af hópnum sem fór ósigraður í gegnum úrvalsdeildartímabilið 2003-04.
Þeir spiluðu þó aðeins 53 leiki hlið við hlið, en fengu ekki nema 0,70 mörk á sig á leik.
Rio Ferdinand og Nemanja Vidic eru í öðru sæti listans eftir að hafa spilað 118 leiki saman fyrir Manchester United, en þeir fengu 0,71 mark á sig á leik.
Virgil van Dijk og Joel Matip eru í sjötta sæti listans og er Jamie Carragher einn af nokkrum varnarmönnum sem koma fyrir í tveimur miðvarðapörum. John Terry, Gary Cahill og Toby Alderweireld eru einnig í tveimur miðvarðapörum á topp 20 listanum.
Athugasemdir