Ítalski kantmaðurinn Domenico Berardi er orðinn 30 ára gamall og snéri aftur úr meiðslum á dögunum til að spila sinn fyrsta leik fyrir Sassuolo síðan í mars.
Berardi er algjör lykilmaður í liði Sassuolo og var meðal gæðamestu kantmanna ítalska boltans um skeið. Hann hefur leikið fyrir Sassuolo allan ferilinn og haldið tryggð við félagið þrátt fyrir tilboð úr enska boltanum.
Nú leikur Sassuolo aftur í Serie B, næstefstu deild á Ítalíu, eftir ellefu ár í efstu deild. Berardi kom inn af bekknum í síðasta leik liðsins og lagði upp í stórsigri gegn Cittadella, en Sassuolo er í þriðja sæti með 15 stig eftir 8 fyrstu umferðirnar eftir að hafa fallið úr efstu deild fyrr á árinu.
Berardi er oft meiddur og missti af stórum hluta síðustu leiktíðar vegna meiðsla. Hann skoraði þó 9 mörk og gaf 3 stoðsendingar í 17 leikjum áður en hann sleit hásin í mars.
Hann gaf kost á sér í viðtal nokkrum dögum eftir að hafa komið inn af bekknum og lagt upp gegn Cittadella og sagði meðal annars að markmiðið sitt væri að spila í Meistaradeildinni áður en hann leggur skóna á hilluna.
„Markmiðið mitt er að spila í Meistaradeildinni. Ef mér tekst að komast í topp form með Sassuolo og mér berst nógu gott tilboð í janúar þá mun ég skipta um félag. Ef það gerist ekki þá mun ég halda áfram að gera mitt besta fyrir Sassuolo þar til í júní," sagði Berardi.
Berardi var mikilvægur hlekkur í landsliði Ítalíu sem vann EM 2020.
Athugasemdir