Mosfellingurinn Ísak Snær Þorvaldsson bindur vonir við það að vera valinn í íslenska landsliðshópinn sem kemur saman í Fort Lauderdale í Flórída-ríki í Bandaríkjunum í janúar.
Tímabilið hjá Rosenborg voru mikil vonbrigði. Félagið er stórveldi í norska boltanum en gekk í gegnum mikla erfiðleika á tímabilinu og hafnaði í 9. sæti deildarinnar.
Ísak var meiddur fyrri hlutann en þegar hann snéri aftur spilaði hann mikilvæga rullu í liðinu og skoraði alls sjö mörk í 21 leik í öllum keppnum.
Ágætis tímabil hjá honum og gerir hann sér nú vonir um að vera valinn í íslenska landsliðshópinn sem fer til Fort Lauderdale í janúar. Þetta er ekki hefðbundinn FIFA gluggi og verða því aðeins leikmenn í hópnum sem spila á Norðurlöndunum.
„Já, maður gefur sér alltaf vonir. Maður verður að bíða og sjá, en maður vill alltaf spila fyrir landið sitt, þannig vonandi fær maður að gera það,“ sagði Ísak.
Ísak á 4 A-landsleiki að baki. Hann spilaði vináttulandsleiki í nóvember á síðasta ári og síðan aftur í byrjun árs. Þá á hann 27 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.
Athugasemdir