Heimild: mbl
Tindastóll tapaði 3-1 á útivelli gegn Selfossi í Bestu deild kvenna í kvöld. Tindastóll komst í 0-1 en Selfoss svaraði með tveimur mörkum fyrir hálfleik og þriðja mark heimakvenna kom svo í upphafi seinni hálfleiks.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 1 Tindastóll
Á 48. mínútu átti Bryndís Rún Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, sendingu til baka í átt að Monicu Wilhelm í markinu. Í útsendingu frá leiknum, á Stöð 2 Sport, virðist snúningurinn á boltanum breytast þegar Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfoss, reyndi að komast inn í sendinguna.
Boltinn fór inn á teiginn og Monica í markinu tók upp boltann, Unnur Dóra kallaði eftir einhverju frá dómaranum og Jakub Marcin Róg, dómari leiksins, dæmdi óbeina aukaspyrnu. Barbára Sól Gísladóttir tók aukaspyrnuna, pikkaði boltanum til hliðar og Katla María Þórðardóttir skaut á markið og skoraði sitt annað mark í leiknum.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, sem er þjálfari Tindastóls, ræddi við mbl.is eftir leikinn.
„Það heyrðu það allir á vellinum að boltinn fór í leikmann Selfoss og bekkurinn hjá Selfossi fór bara að hlæja þegar hann dæmdi. Dómarinn baðst afsökunar eftir leik en þetta eyðilagði mómentið fyrir okkur, við byrjuðum seinni hálfleikinn vel en þriðja mark Selfoss var algjört lykilatriði í leiknum. Það var ennþá von fyrir okkur í 2:1 en það var talsvert minni von í 3:1. Ég er mjög svekktur með þetta," sagði Donni í samtali við Guðmund Karl á mbl.is.
Selfoss vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu í kvöld, liðið er með fjögur stig í 7. sæti en Tindastóll er á botninum með tvö stig eftir fjóra leiki.
Athugasemdir