Hlín Eiríksdóttir er tilnefnd sem besti sóknarmaðurinn í Svíþjóð og talað er um það í sænskum fjölmiðlum að hún hafi sett lið Kristianstad, eitt sterkasta liðið þar í landi, á herðar sér.
Hlín hefur leikið frábærlega frá því hún fór út til Svíþjóðar frá Val, fyrst með Piteå og svo með Kristianstad.
Hlín hefur leikið frábærlega frá því hún fór út til Svíþjóðar frá Val, fyrst með Piteå og svo með Kristianstad.
Það má kannski færa rök fyrir því að hún sé vanmetin á Íslandi ef horft er á það sem hún hefur gert í Svíþjóð. Þar er hún hlaðin lofi.
„Hlín hefur spilað vel í Svíþjóð og skorað mikið. Hún hefur þróast vel. Hún skorar mörk í öllum regnbogans litum. Hún er góð inn í teig og er líka góð fyrir utan teig. Hún hefur reynst þeim virkilega vel," sagði Þorsteinn Halldórsson á fréttamannafundi í dag er hann var spurður út í Hlín.
Guðrún Arnardóttir er þá tilnefnd sem besti varnarmaðurinn í Svíþjóð.
„Guðrún hefur líka verið frábær með Rosengård. Þetta er merki um að þær hafi spilað mjög vel og gert frábæra hluti þarna. Það er jákvætt fyrir okkur sem landslið að leikmenn standi sig vel í sínum félagsliðum og séu að verða betri."
Fanney farin til Svíþjóðar
Það var annar íslenskur leikmaður að bætast í flóruna í Svíþjóð en Fanney Inga Birkisdóttir er búin að semja við Häcken sem er eitt sterkasta liðið þar í landi.
„Ef hún spilar alltaf, þá er þetta frábært dæmi. Gott skref fram á við fyrir hana. Þetta hjálpar henni að verða betri. Ef hún spilar þarna, þá verður Fanney enn betri. Ef leikmenn eru að taka góð skref á sínum ferli, þá hjálpar það okkur," sagði Þorsteinn en það verður spennandi að fylgjast með Fanneyju í Svíþjóð. Það er deild sem hefur reynst mörgum íslenskum leikmönnum vel.
Fanney fékk höfuðhögg í síðasta verkefni en er klár í slaginn núna fyrir tvo æfingaleiki sem eru framundan, eins og Alexandra Jóhannsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir.
„Heilsan á Bryndísi er góð og hún hefur verið að æfa á fullu frá því við vorum úti síðast. Alexandra var í sprautumeðferð frá síðustu landsleikjum og var ekki með í því verkefni út af því. Hún er á fullu núna og er klár. Fanney fær náttúrulega þetta höfuðhögg á æfingu og hefur verið að trappa sig upp. Hún verður klár í verkefnið út á Spáni," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir