Aron Einar Gunnarsson segir að ástandið á sér sé gott fyrir landsleikinn gegn Svartfjallalandi á morgun. Eftir æfingu Íslands í Podgorica í dag þá spjallaði Aron við fréttamenn.
„Þegar ég fór í aðgerð á hásin fyrir ári síðan setti ég mér það markmið að koma mér í landsliðið og það plan er að ganga upp. Mér líður vel og hef æft af krafti," segir Aron sem gekk í raðir Al-Gharafa í Katar. Vegna útlendingakvóta í deildinni spilar hann bara í Meistaradeild Asíu.
„Það er auðvitað skrítin staða að vera kominn út og spila bara í Meistaradeildinni en það er það eina sem var í boði, uppá það að spila leiki. Standið á mér er gott."
„Þegar ég fór í aðgerð á hásin fyrir ári síðan setti ég mér það markmið að koma mér í landsliðið og það plan er að ganga upp. Mér líður vel og hef æft af krafti," segir Aron sem gekk í raðir Al-Gharafa í Katar. Vegna útlendingakvóta í deildinni spilar hann bara í Meistaradeild Asíu.
„Það er auðvitað skrítin staða að vera kominn út og spila bara í Meistaradeildinni en það er það eina sem var í boði, uppá það að spila leiki. Standið á mér er gott."
Gott að vera kominn til baka
Íslenska liðið er þunnskipað þegar kemur að miðvörðum og Aron er hugsaður sem miðvörður í hópnum í þessu verkefni.
„Þú veist alveg hvernig það er þegar ég spila fyrir landsliðið, ég spila hvaða stöðu sem er og það sem þjálfarinn velur mig í. Ég get bæði leyst miðvarðarstöðuna og miðjuna, skiptir mig engu máli. Það er gott að vera kominn til baka og geta gefið af mér og miðlað minni reynslu á þá stráka sem hafa gert vel síðasta árið. Þetta snýst ekki bara um mig, ég er kominn til að miðla minni reynslu og reyna að betrumbæta það sem hægt er."
Aron segist sjá mun á yngri leikmönnum liðsins á æfingum og segir greinilegt að þeir séu að stíga upp innan hópsins.
„Mér finnst góður gangur í þessu og menn eru að bæta sig. Ég sé bara mun á mönnum á æfingum frá því ég var fyrir ári síðan. Það er kraftur í þessum strákum og þeir gefa manni orku, maður þarf að stíga upp á æfingum og maður finnur það sjálfur," segir Aron.
Ætlum okkur að búa til úrslitaleik
Æfingin í dag fór fram á þjóðarleikvangi Svartfellinga en grasflötur vallarins er ekki orðinn nægilega góður að mati UEFA og því verður spilað í öðrum bæ, Niksic, á morgun. Aroni fannst völlurinn í Podgorica þó fínn.
„Þetta er eitthvað sem UEFA hefur ákveðið. Fínasti völlur, ég verð að segja eins og er. Það var kannski inni í teigunum sem maður var að renna svolítið mikið á æfingunni. Annars er ekkert hægt að kvarta yfir þannig séð."
Ef Ísland vinnur Svartfjallaland og Wales vinnur ekki Tyrkland á sama tíma þá verður leikur Wales og Íslands í Cardiff á þriðjudag úrslitaleikur um annað sæti riðilsins. Ef Ísland gerir jafntefli á laugardag og Wales tapar verður leikurinn á þriðjudag líka úrslitaleikur.
„Ef úrslitin í hinum leiknum falla með okkur þá getum við búið til þennan úrslitaleik. Við þurfum að ná í þrjá punkta en við vitum að það er öðruvísi að mæta Svartfjallalandi úti en heima. Þetta verður barátta á morgun og við þurfum að mæta þeim af krafti. Þeir vilja klára riðilinn á góðan hátt. Þeir eru ekki komnir með punkt en mér finnst það ekki alveg gefa rétta mynd, mér finnst þeir betri en það. Við ætlum okkur að búa til úrslitaleik í Wales," segir Aron sem lék náttúrulega lengi með Cardiff City og snýr á gamlar slóðir í komandi viku.
„Ég hlakka til. Árin sem ég var í besta standinu var ég þar, átta ár. Cardiff er sérstakur staður fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er spenntur."
Landslið karla - Þjóðadeild
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Tyrkland | 4 | 3 | 1 | 0 | 8 - 3 | +5 | 10 |
2. Wales | 4 | 2 | 2 | 0 | 5 - 3 | +2 | 8 |
3. Ísland | 4 | 1 | 1 | 2 | 7 - 9 | -2 | 4 |
4. Svartfjallaland | 4 | 0 | 0 | 4 | 1 - 6 | -5 | 0 |
Athugasemdir