sun 29. september 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Neville brjálaður yfir leikaðferð Wolves - „Þessu verður að linna“
Leikmenn Wolves voru ekkert að flýta sér að koma til baka
Leikmenn Wolves voru ekkert að flýta sér að koma til baka
Mynd: Getty Images
Gary Neville
Gary Neville
Mynd: Getty Images
Sparkspekingurinn Gary Neville brjálaðist yfir leik Wolves og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær en hann skildi ekkert í leikaðferð Úlfana í síðari hálfleiknum.

Wolves var betra liðið fyrstu mínútur leiksins áður en Liverpool tók við sér.

Ibrahima Konate kom Liverpool yfir með skalla undir lok fyrri hálfleiks en Rayan Ait-Nouri jafnaði eftir mistök franska varnarmannsins.

Mohamed Salah kom Liverpool aftur yfir með marki úr vítaspyrnu en lítið breyttist hjá Wolves eftir það og héldu leikmenn áfram að spila boltanum í öftustu varnarlínu og á markvörðinn.

Neville átti erfitt með að skilja aðferðir Wolves í leiknum.

„Þeir senda boltann til baka á markvörðinn. Þetta gerir mig alveg brjálaðan. Þú þarft mark. Vita þeir af því? Í alvöru talað þá verðið þið að hætta þessu. Þetta er allt of pirrandi,“ sagði Neville.

„Ég get ekki horft á þetta því raunveruleikinn er sá að þú getur ekki platað áhugamenn um fótbolta. Þeir vita nákvæmlega hvað er í gangi. Þú verður að vera með aðrar hugmyndir og gera eitthvað öðruvísi. Ég er ekki að tala um að þrykkja boltanum langt fram völlinn eða taka seinni bolta.“

„Við reynum alltaf að kenna Pep Guardiola um þetta, en liðin hans geta þetta þannig ég hef ekkert á móti hans liðum og hvernig þau spila. Hann er einn besti þjálfari sögunnar og síðustu tíu árin hafa liðin hans verið ein af þeim bestu sem ég hef augum barið.“

„En núna erum við að horfa á lið sem eru í neðri hluta deildarinnar að spila sex sendingar á milli miðvarða og markvarðar þegar fjórar mínútur eru eftir og liðið þarf á marki að halda. Ég get ekki sætt mig við það.“

„Ég er ekki bara að gagnrýna Wolves því það eru fullt af liðum að gera þetta. Þessu verður að linna.“

„Ég hef ekkert á móti því að þeir spili frá aftasta manni, en það kemur sá tímapunktur í leiknum þar sem þú áttar þig á því að þú ert í vandræðum með að hafa áhrif og þarft að skapa einhverja pressu, hækka spennuna í andrúmsloftinu og skora mark.“

„Það eru 20 þúsund stuðningsmenn Wolves á vellinum að bíða eftir einhverju og við erum með myndavélina á Gary O'Neil á meðan ég er að horfa á leikmennina. Þeir verða að átta sig á því að þeir þurfa að setja einhverja spennu í þetta. Ég skil hvernig þeir spila, varðandi leikkerfið og færslur, en vinnan er að ná í boltann og koma honum á framherjann eins fljótt og mögulegt er. Það er markmið fótboltans og síðan getur þú spilað út frá því.“

„Mörg lið hafa gleymt kjarna fótboltans. Komið boltanum fram völlinn á hæfileikaríkustu leikmennina. Það er ekkert flóknara en það. Það var ekki markmiðið hér eða í öðrum leikjum á tímabilinu, en ég skil alveg að liðið er ekki alltaf með boltann,“ sagði Neville.

Wolves er í botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins eitt stig en Liverpool tók toppsætið með sigrinum.
Athugasemdir
banner
banner