Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 16. janúar 2019 21:00
Hafliði Breiðfjörð
Miklar breytingar á stjórn KSÍ - varaformaðurinn hættir
Guðrún Inga hættir sem varaformaður KSÍ.
Guðrún Inga hættir sem varaformaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Jakobsson hættir í varastjórn og þar með ljóst að hann hættir sem formaður dómaranefndar.
Kristinn Jakobsson hættir í varastjórn og þar með ljóst að hann hættir sem formaður dómaranefndar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það má búast við miklum breytingum á stjórn KSÍ á næstkomandi ársþingi 9. febrúar en nú er ljóst að fjórir stjórnarmenn í aðal- og varastjórn sambandsins sækjast ekki eftir endurkjöri. Þetta staðfestu þau sjálf í samtölum við Fótbolta.net í kvöld.

Stærstu tíðindin eru þau að Guðrún Inga Sívertsen varaformaður sambandsins ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri en kjörtímabili hennar lýkur í ár.

Fimm af níu þurfa að endurnýja umboð sitt
Af 9 stjórnarmönnum var ljóst að fimm þyrftu að endurnýja umboð sitt vildu þau vera áfram en hin fjögur, Ingi Sigurðsson, Gísli Gíslason, Ragnhildur Skúladóttir og Valgeir Sigurðsson eiga öll ár eftir af sínu kjörtímabili.

Auk Guðrúnar Ingu ætlar Vignir Már Þormóðsson að hætta í stjórninni eftir 12 ára stjórnarsetu. Borghildur Sigurðardóttir og Magnús Gylfason sækjast eftir endurkjöri eins og Guðni Bergsson formaður.

Í varastjórn þurfa allir þrír að endurnýja umboð sitt, þeir Kristinn Jakobsson og Ingvar Guðjónsson hætta en Jóhann Torfason sækist eftir endurkjöri. Þar með er ljóst eð Kristinn verður ekki áfram formaður dómaranefndar.

Aðeins eitt framboð er staðfest en það er Geir Þorsteinsson heiðursformaður sem býður sig fram gegn Guðna í formannsembættið. Þá íhugar Ragnheiður Ríkharðsdóttir að gera slíkt hið sama.

Stjórn KSÍ:
Guðni Bergsson - sækist eftir endurkjöri sem formaður
Ingi Sigurðsson - ár eftir
Gísli Gíslason - ár eftir
Ragnhildur Skúladóttir - ár eftir
Valgeir Sigurðsson - ár eftir
Borghildur Sigurðardóttir - sækist eftir endurkjöri
Guðrún Inga Sívertsen - hættir
Vignir Már Þormóðsson - hættir
Magnús Gylfason - sækist eftir endurkjöri

Varastjórn:
Ingvar Guðjónsson - hættir
Jóhann Torfason - sækist eftir endurkjöri
Kristinn Jakobsson - hættir
Athugasemdir
banner
banner