Willum skoraði gegn Ítalíu í næstsíðasta leik Íslands í undankeppninni. Willum skoraði alls þrjú mörk í keppninni.
„Við vorum búnir að gera það vel í þessari undankeppni að þetta var alltaf að fara spilast með okkur"
Willum Þór Willumsson (22 ára) gekk í raðir Bate Borisov í Hvíta-Rússlandi snemma árs 2019. Hann gekk í raðir félagsins frá uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki.
Fyrir áramót lauk því hans annað tímabil með félaginu en það var ansi athyglisvert. Leikið var í Hvíta-Rússlandi síðasta vor á meðan svo gott sem allstaðar annars staðar var hlé vegna heimsfaraldursins. Fótbolti.net heyrði í Willum í síðustu viku og fór yfir liðið tímabil með honum.
Willum Þór Willumsson (22 ára) gekk í raðir Bate Borisov í Hvíta-Rússlandi snemma árs 2019. Hann gekk í raðir félagsins frá uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki.
Fyrir áramót lauk því hans annað tímabil með félaginu en það var ansi athyglisvert. Leikið var í Hvíta-Rússlandi síðasta vor á meðan svo gott sem allstaðar annars staðar var hlé vegna heimsfaraldursins. Fótbolti.net heyrði í Willum í síðustu viku og fór yfir liðið tímabil með honum.
Sjá einnig:
Ætla mér enn stærra hlutverk hjá BATE (13. des '19)
Eins og fyrr segir þá var boltinn í gangi í Hvíta-Rússlandi síðasta vor. Við byrjum þetta á smá Covid-yfirheyrslu en förum svo í fótboltann. Hvernig var að spila á þessum óvenjulegu tímum? Hvernig var andrúmsloftið í hópnum á þessum tíma?
„Það var skemmtilegt, maður var heppinn að vera akkúrat á eina staðnum í heiminum þar sem spilaður var fótbolti," sagði Willum.
„Andrúmsloftið var mjög fínt. Flestallir ánægðir með það að spila áfram."
Var eitthvað ósætti með að það væri verið að spila?
„Nei, ég fann ekki fyrir neinu ósætti. Það var smá óvissa fyrst hvað myndi gerast en síðan voru allir klárir í að spila áfram."
Óttaðistu einhvern tímann um eigið öryggi gagnvart veirunni af því það var spilað áfram?
„Nei, alls ekki. Ég var mjög ánægður að fá að halda áfram að spila frekar en að lenda í stoppi og kannski útgöngubanni eins og sumir."
Hvernig var bikarúrslitaleikurinn (24. maí) og hvernig var að klára hann í framlengingu?
Willum kom inn á í upphafi framlengingarinnar þegar Bate landaði bikarmeistaratitlinum gegn Brest síðasta sumar.
„Þetta var frekar jafn leikur en við erum að fá færi, sérstaklega þegar það fór að líða á leikinn. Það var síðan geggjað að skora nánast alveg í lok framlengingar og vinna titilinn."
Varstu ánægður með þína innkomu í leikinn?
„Já, ég var mjög ánægður með mína innkomu. Ég fékk mjög gott færi rétt áður en við skorum, þar sem ég hefði átt að skora, en sem betur fer kostaði það okkur ekki."
Þú spilaðir meiddur í leiknum, vissi teymið af því?
„Já, þeir vissu af því. Ég hafði einnig spilað deildarleikinn á undan meiddur og varla getað æft fram að leiknum."
Var ekkert mál að harka sig í gegn um þennan hálftíma? Þurftiru einhverja sprautu eða slíkt?
„Já, ég var sprautaður nokkrum dögum fyrir leik. Ég tók verkjalyf, hitaði vel upp og svo 'kickaði' andrenalínið inn þegar ég byrjaði að spila. Þá gleymdi ég verknum og því leið mér vel í leiknum sjálfum."
Þú missir af mörgum leikjum (9 af 10 næstu deildarleikjum auk Evrópuleikja) eftir bikarúrslitinn. Dró það einhvern dilk á eftir sér að hafa spilað leikinn?
„Nei, þetta voru alltaf að fara vera leiðinda meiðsli hvort sem ég hefði spilað eða ekki."
Hversu svekkjandi var að ná ekki að klára deildartitilinn og hversu sekkjandi fyrir þig að geta ekki hjálpað til í lokaleiknum?
Bate missti af titlinum á dramatískan hátt þegar liðið náði einungis jafntefli í lokaumferðinni. Willum hafði meiðst í U21 landsleiknum gegn Írlandi og gat því ekki leikið með Bate.
„Það var ótrúlega svekkjandi að klára ekki deildina. Leiðinlegt og erfitt að geta ekki verið með og hafa þurft að horfa á lokaleikinn."
Voruð þið svekktir með að andstæðingar Shakhtyor náðu ekki að halda út eða eingöngu út í ykkur sjálfa?
Shakhtyor landaði titlinum með því að skora tvisvar undir blálokin á sínum leik.
„Við vorum aðallega svekktir út í okkur sjálfa þar sem við hefðum átt að vera búnir að klára deildina miklu fyrr í staðinn fyrir að setja upp hálfgerðan úrslitaleik í lokaumferðinni."
Hvernig var þitt tímabil og þitt hlutverk í liðinu? Hvaða stöður varstu að leysa á tímabilinu?
„Ég byrja tímabilið vel og er að spila slatta, síðan meiðist ég og er frá í langan tíma. Ég næ síðan einum leik og meiðist aftur. Eftir önnur meiðslin er ég að spila alla leiki, nánast allar mínútur í leikjunum og er að spila mjög vel. Síðan meiðist ég aftur og missi af síðustu tveimur leikjunum á tímabilinu sem var svekkjandi. Ég spilaði allar stöðurnar á miðjunni, mest áttuna og tíuna en síðan prófaði ég aðeins sexuna."
Hvernig horfa komandi tímar við þér, ertu farinn að líta í kringum þig varðandi næsta skref á ferlinum? Hvenær byrjar deildin í Hvíta-Rússlandi?
„Auðvitað vill maður alltaf komast lengra en núna er ég eingöngu með einbeitinguna á komandi tímabil með Bate og að halda mér meiðslalausum. Tímabilið byrjar um miðjan mars."
Hvernig var að vera hluti af þessu ævintýri hjá U21 að tryggja sér sæti inn í lokakeppnina (milliriðla)?
„Það er geggjað að vera hluti af þessum hópi og alltaf ótrúlega gaman að spila í þessu liði."
Hversu ánægjulegt var að sjá Valdimar skora þetta mark í Írlandi og sjá Ítalina klára Svía?
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði undir blálokin gegn Írlandi sem kom Íslandi, tryggði Íslandi þrjú stig og kom liðinu í vænlega stöðu. Ítalía þurfti svo að vinna Svíþjóð í lokaleik riðilsins svo Íslands færi áfram.
„Það var ótrúlega ánægjulegt að sjá Valda skora alveg í lokin. Ítalía var alltaf að fara vinna Svíþjóð, við vorum búnir að gera það vel í þessari undankeppni að þetta var alltaf að fara spilast með okkur."
Varst kallaður inn í A-landsliðið eftir Írlandsleikinn. Mikill heiður að fá kallið og á sama tíma svekkjandi að geta ekki verið með á Wembley? Hvernig er staðan á þér líkamlega núna, 100% heill?
„Já, það var mikill heiður að fá kallið og ákveðin viðurkenning og já, mjög svekkjandi að geta ekki tekið þátt í því verkefni. Ristin er 100% núna."
Willum Þór Þórsson, pabbi þinn. Hvað geturu sagt mér um hann? Spjallaru við hann eftir leiki og farið þið saman yfir leikina eða eitthvað svoleiðis?
„Já, við spjöllum saman eftir nánast alla leiki bara um hitt og þetta. Það er ógeðslega gaman að tala um fótbolta við pabba. Hann kenndi mér helling og er enn að kenna mér."
Að öðru léttara efni. Bæði þú og Kolbeinn Þórðarson hafið komið inn á hita ykkar á milli á battavellinum í 'hinni hliðinni'. Er nálægt því að sjóða upp úr?
„Alltaf alvöru hiti og tuð þegar ég og Kolbeinn Þórðarsson erum í sitthvoru liðinu á battó eða æfingum," sagði Willum.
„Willum Þór Willumsson er óþolandi í spili á æfingum og 5v5 á battavelli," sagði Kolbeinn aðspurður um mest óþolandi leikmanninn sem hann hefur mætt.
„Við vorum mikið að spila 4 á 4 eða 5 á 5 og svona á battó eða niðri í Fífu og ég held að þetta komi þaðan. Við erum báðir með mikið keppnisskap."
Hvort er mikilvægara að vinna gegn Binna (Brynjólfi Andersen, litla bróður) í einhverju eða gegn Kolbeini? Vinnur þú alltaf?
„Það er alltaf jafn gaman að vinna þá báða. Já, ég vinn alltaf."
Þú segir í 'hinni hliðinni' að þú eigir ekki bíl. Þarftu ekki á bíl að halda þar sem þú ert eða hefuru engan áhuga á að eignast slíkan?
„Staðan er þannig að ég þarf ekkert á bíl að halda eins og er en ég leigi mér stundum bíl þegar mig langar að hafa bíl," sagði Willum að lokum.
Athugasemdir