banner
   mán 03. október 2022 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Higuain leggur skóna á hilluna og varar við netníði
Higuain og Cristiano Ronaldo í faðmlögum með Douglas Costa við hliðina á sér.
Higuain og Cristiano Ronaldo í faðmlögum með Douglas Costa við hliðina á sér.
Mynd: Getty Images

Gonzalo Higuain er búinn að staðfesta að hann leggur fótboltaskóna á hilluna eftir tímabilið í bandarísku MLS deildinni. Hann hefur átt afar farsælan feril með hinum ýmsu félagsliðum og argentínska landsliðinu.


Higuain, sem verður 35 ára í desember, endar ferilinn hjá Inter Miami þar sem hann er í lykilhlutverki þrátt fyrir aldurinn og er kominn með 14 mörk í 26 deildarleikjum á tímabilinu, þar af fimm í síðustu fjórum leikjum.

Fjölskyldufaðirinn Higuain telur þetta vera komið gott og ætlar að einbeita sér að því að njóta með fjölskyldunni. Hann mun þó sakna fótboltans og grét þegar hann gaf tilkynninguna frá sér með fjölskylduna sér við hlið.

Higuain byrjaði ferilinn hjá River Plate og lék svo fyrir Real Madrid, Napoli, Juventus, Milan og Chelsea áður en hann flutti til Miami.

„Ég vil tala um neikvæðu áhrifin sem samfélagsmiðlar geta haft á fótboltamenn. Þið getið ekki ímyndað ykkur skaðann sem neikvæð ummæli geta gert," sagði Higuain eftir að hafa lagt skóna á hilluna.

„Um tíma þjáðist ég virkilega mikið en fjölskyldan hjálpaði mér í gegnum það. Fólk ætti að hugsa sig tvisvar um áður en það ræðst á einhvern á samfélagsmiðlum. Þetta er grafalvarlegt mál."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner