Sigurður Bjartur Hallsson (22 ára) fékk leyfi hjá KR til að ræða við félög erlendis og jafnvel semja við þau eftir að hann samdi við KR í október. Sigurður hafði möguleika á að semja við lið erlendis til fyrsta janúar, fór tvisvar sinnum á reynslu en ákvað að semja ekki við félögin.
Fyrri reynslan var í Noregi, hjá Kongsvinger sem spilar í næst efstu deild í Noregi á komandi tímabili.
Fyrri reynslan var í Noregi, hjá Kongsvinger sem spilar í næst efstu deild í Noregi á komandi tímabili.
Í síðasta mánuði var hann svo á reynslu hjá NK Lokomotiva Zagreb í Króatíu. Honum gekk vel og fékk samningstilboð sem hann ákvað að hafna.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefði Sigurður spilað með venslafélagi liðsins út tímabilið og jafnvel það næsta einnig áður en hann kæmi inn í hópinn hjá Lokomotiva. Það heillaði ekki og þá var samningurinn sjálfur ekki nægilega heillandi.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var í viðtali í gær eftir leik gegn Fram í Reykjavíkurmótinu. Hann var spurður út í Sigurð sem hafði komið inn á sem varamaður í leiknum og skoraði sitt fyrsta mark í treyju KR.
„Glugginn fyrir hann lokaði held ég 1. febrúar þannig hann verður KR-ingur í allt sumar. Við erum ánægðir með Sigurð, hann er að læra fullt, skorar fyrsta markið sitt í keppnisleik fyrir okkur í dag, klárar færin sín mjög vel og það er alveg frábært að þjálfa hann því hann er dugnaðarforkur sem hleypur mikið. Hann leggur mikið á sig, hlustar og gerir allt sem hann er beðinn um," sagði Rúnar.
„Svo verður annað að koma í ljós, hvort að menn spili, hafi gæðin í það og það er jafnt með hann eins og Hall [Hansson], Kjartan Henry eða Kidda Jóns. Menn þurfa bara að standa sig, æfa vel og sýna þjálfaranum að þeir eiga skilið að vera í liðinu. Þeir sem eiga það skilið þeir spila, sama hvað þeir heita."
Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.
Athugasemdir