Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 09. janúar 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vill stýra Íslandi lengur - „Beðinn um að halda áfram með liðið"
Age Hareide.
Age Hareide.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur stýrt Íslandi frá því í mars í fyrra.
Hefur stýrt Íslandi frá því í mars í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í desember að gefa formanni KSÍ umboð til að ræða við Age Hareide landsliðsþjálfara um mögulega endurnýjun á samningi hans.

Hareide er með samning sem gildir út umspilið en framlengist sjálfkrafa ef hann nær að koma liðinu í úrslitakeppni EM í Þýskalandi.

Norðmaðurinn tók við íslenska landsliðinu eftir tvo leiki í liðinni undankeppni EM en þá var Arnar Þór Viðarsson rekinn.

Það hefur verið nokkur ánægja með störf Hareide og hann sjálfur er ánægður í starfinu. Hann er tilbúinn að vera áfram með liðið en hann sagði frá því í samtali við Fótbolta.net.

„Já, ég vil halda áfram," sagði Hareide við Fótbolta.net í dag.

„Ég kann vel við fólkið og leikmennina sem ég vinn með, þeirra viðhorf. Ég kann líka vel við stuðninginn sem við fáum frá stuðningsfólkinu. Þegar ég hef verið á Laugardalsvelli hef ég fundið fyrir því. Það er mikil tenging á milli fólksins hérna og ég kann vel við það. Ég er ánægður og vil gjarnan halda áfram. Mér finnst best að taka eitt ár í einu því þú veist aldrei hvað gerist á mínum aldri," sagði Norðmaðurinn og hló.

„Það er mikilvægt núna að einbeita okkur að komast á EM og vonandi spilum við þar. Eftir EM er svo Þjóðadeildin í haust. Það er mikilvægt að það sé stöðugleiki og ég hef verið beðinn um að halda áfram með liðið. Ég er ánægður að gera það."

„Ég hef notið þess að vera með íslenska liðið. Ég hef náð vel saman við starfsfólkið og leikmennina. Menn eru mjög mótíveraðir að spila. Það eru engin leiðindi og það eru allir tengdir vel saman. Ég hef notið að vinna reynslumeiri leikmönnum og ég hef haft mjög gaman að því að vinna með með efnilegri leikmönnunum. Allir leikmennirnir gefa þér eitthvað. Ég hlakka til að vinna meira með liðinu. Núna fáum við tvo æfingaleiki í Flórída og skoðum fleiri leikmenn. En við erum á sama tíma að byrja undirbúninginn fyrir leikinn gegn Ísrael."

„Þegar verkefninu er lokið þá mun ég örugglega ferðast og hitta leikmenn. Það er mikilvægt að segja þeim frá þeirra hlutverki í mars. Ég mun líka segja þeim hvað mér fannst um þeirra vinnu á síðasta ári."

Hareide er 70 ára gamall og er fyrrum landsliðsþjálfari Noregs og Danmerkur auk þess sem hann hefur stýrt Rosenborg, Malmö og fleiri liðum í Skandinavíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner