þri 15. nóvember 2022 15:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar sammála Aroni um líklegan sigurvegara HM
Mynd: EPA
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Framundan er undanúrslitaleikur gegn Litháen í Eystrasaltsbikarnum. Leikurinn fer fram í Litháen á morgun og hefst hann klukkan 17:00 að íslenskum tíma.

Í lok fundar voru þeir spurðir út í HM í Katar, spurt var hvaða lið væri líklegast til að vinna mótið að þeirra mati.

„Ég hef alltaf sagt Brasilía, og smá Spánn. Svo ertu með (Lionel) Messi sem er líklega á sínu síðasta heimsmeistaramóti. Það eru nokkur lið sem ég er að hugsa um þessa stundina. Fyrir mér er Brasilía örugglega með besta liðið á mótinu," sagði Aron.

„Ég er mjög lélegur þegar kemur að því að spá. Brasilía er alltaf með frábæran hóp. Núna er verið að spila í Katar og oft þegar mótið er spilað utan Evrópu þá hefur evrópsku liðunum gengið verr að vinna. Ég segi Brasilía líka. Fyrirliðinn minn hefur alltaf rétt fyrir sér," sagði Arnar.

HM byrjar á sunnudag. Opnunarleikur mótsins er viðureign Katar og Ekvador.
Athugasemdir
banner
banner
banner