Brasilíski sóknarmaðurinn Roberto Firmino er sá besti sem hollenski miðvörðurinn Virgil van Dijk hefur spilað með hjá Liverpool, en hann talaði afar vel um liðsfélaga sinn í hlaðvarpsþættinum Pitch Side á dögunum.
Van Dijk, sem kom til Liverpool í byrjun árs 2018, hefur spilað með mörgum frábærum leikmönnum hjá félaginu.
Mohamed Salah, Thiago, Andy Robertson, Sadio Mane og Trent Alexander-Arnold eru á meðal þeirra en það er þó annar leikmaður sem hefur staðið upp úr að mati Van Dijk; Roberto Firmino.
„Ég myndi segja að það væri Bobby Firmino. Vitandi það hversu erfitt það er að spila gegn honum sem varnarmaður því hann er alltaf í djúpinu. Ég myndi segja að það væri hann en ég hef líka notið þess að spila með Mo Salah, Sadio Mane og auðvitað Thiago,“ sagði Van Dijk.
Firmino hefur skorað 107 mörk í 438 leikjum með Liverpool frá því hann kom frá Hoffenheim fyrir rúmum sjö árum síðan.
Athugasemdir