
Ekvador lagði heimamenn í Katar að velli í opnunarleik heimsmeistaramótsins.
Enner Valencia gerði bæði mörk leiksins í fyrri hálfleik og vildu þyrstir stuðningsmenn gestanna frá Ekvador drekka bjór með leiknum en fengu ekki. Þeir mótmæltu því með einföldum söng í leikhléinu. „Við viljum bjór! Við viljum bjór!" kölluðu gulklæddu stuðningsmennirnir af pöllunum.
Bjór hefur verið bannaður á leikvöngum Katar yfir HM þrátt fyrir að bjórframleiðandinn Budweiser sé helsti styrktaraðili mótsins.
FIFA og Katar eiga enn í viðræðum um málið en útlit er fyrir að ríkisstjórn Katar ætli ekki að gefa sig.
Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur ekki farið vel í ýmsa stuðningsmannahópa sem eiga það sameiginlegt að njóta þess að drekka bjór á leikvanginum.
Ljóst er að stuðningsmenn Ekvador mynda einn af þeim hópum.