Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla aðalþjálfara deildarinnar til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Tindastóll, 21 stig
12. Tindastóll
Þriðja árið í röð er Stólunum spáð neðsta sæti deildarinnar. Tindastóll tróð sokk í fyrra og einnig hitt í fyrra. Hvað gera þeir núna, ná þeir að þeir að koma á óvart þriðja tímabilið í röð?
Þjálfarinn: Eyjamaðurinn Yngvi Borgþórsson er þjálfari Tindastóls. Hann tók við liðinu í vetur. Yngvi spilaði lengst af með ÍBV á leikmannaferlinum, en fyrsta þjálfarastarf Yngva var hjá Einherja í 3. deildinni 2016. Hann tók svo við Skallagrími 2017 og kom liðinu upp úr 4. deildinni í fyrra. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst upp á Króknum í sumar.
Styrkleikar: Margir heimamenn eru að spila fyrir félagið og það getur skapað skemmtilega stemningu. Tindastóll er lið sem er erfitt að stoppa þegar það kemst á skrið. Heimavöllurinn er mikilvægur fyrir Tindastól. Í fyrra komu sex af sjö deildarsigrum liðsins á heimavelli. Sauðárkrókur þarf að vera vígi.
Veikleikar: Stefan Antonio Lamanna er horfinn á braut. Hann var aðalmarkaskorari liðsins í fyrra. Í staðinn hafa Stólarnir fengið Spánverjann Alvaro Igualada. Hann er óskrifað blað. Liðið missti einnig Jón Gísla Eyland, sem var í stóru hlutverki undanfarin tímabil, til ÍA. Varnarleikur liðsins þarf að vera sterkari en hann var í fyrra. Liðið fékk í fyrra á sig 53 mörk, næstmest af öllum liðum í deildinni. Liðið sem fékk á sig meira var Huginn, neðsta lið deildarinnar.
Lykilmenn: Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson, Konráð Freyr Sigurðsson, Tanner Sica.
Gaman að fylgjast með: Hafsteinn Ingi Magnússon. Leikmaður sem var að koma frá Þór. Skoraði fernu í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Yngvi Borgþórsson, þjálfari Tindastóls:
„Spáin kemur ekkert sérstaklega á óvart ef tekið er mið af úrslitum liðsins í Lengjubikarnum. Liðið er búið að setja sér ákveðin markmið og það er að gera betur en í fyrra. Við ætlum ekki að styrkja okkur neitt meira."
Komnir:
Alvaro Igualada frá Spáni
Bjarki Baldursson frá Þór (á láni)
Hafsteinn Ingi Magnússon frá Þór
Jonathan Mark Faerber frá Keflavík
Jón Óskar Sigurðsson frá Þór (á láni)
Tanner Sica frá Bandaríkjunum
Farnir:
Arnór Daði Gunnarsson
Jón Gísli Eyland í ÍA
Nile Walwyn
Óskar Smári Haraldsson í Álftanes
Santiago Fernandez til Úrúgvæ
Fyrstu leikir Tindastóls:
4. maí gegn Fjarðabyggð (úti)
11. maí gegn ÍR (heima)
18. maí gegn Víði (úti)
Athugasemdir