Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   sun 27. október 2019 10:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Glódís Perla: Gaman að ná loksins gullinu
Glódís með verlaunagripinn ásamt liðsfélögum sínum.
Glódís með verlaunagripinn ásamt liðsfélögum sínum.
Mynd: Glódís Perla Viggósdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís í landsleik fyrr á árinu.
Glódís í landsleik fyrr á árinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Stjörnunni árið 2014
Í leik með Stjörnunni árið 2014
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var mjög gaman að ná loksins stóru markmiði, að ná gullinu með Rosengård í fyrsta skipti," skrifaði Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður sænsku meistaranna, aðspurð um hvernig tilfinning væri að verða sænskur meistari í fyrsta skiptið. Fótbolti.net hafði samband við Glódísi á dögunum.

„Það var mjög gaman að vinna með Stjörnunni á sínum tíma og eftir að við unnum tvöfalt árið 2014 vissi ég að mig langaði að prófa mig í stærri deild og máta mig gegn betri leikmönnum og liðum. Að ná titlinum hér er markmið sem ég hef haft síðan ég flutti til Svíþjóðar.".

Glódís lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með HK/Víking, fjölskylda hennar flutti svo til Danmerkur og Glódís þar með Horsens. Árið 2012 gekk hún í raðir Stjörnunnar og lék hún þar til ársins 2015 þegar hún söðlaði um og hélt til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Eskilstuna þar sem hún lék næstu tvö árin.

Árið 2017 fór hún svo til Rosengård og vann á fyrstu tveimur tímabilunum með liðinu sænsku bikarkeppninna. Á tímabilinu sem lauk í gær varð Rosengård svo sænskur meistari og Glódís þar í lykilhlutverki í miðverðinum. Rosengård var þremur stigum frá titlinum í fyrra og níu stigum frá honum á fyrsta ári Glódísar hjá félaginu.

Hefur smollið betur saman á þessari leiktíð
Glódís gekk eins og fyrr segir í raðir Rosengård árið 2017 frá Eskilstuna. Glódís var spurð út í vistaksiptin frá Eskilstuna, hver munurinn væri á félögunum og hvað breyttist milli tímabila hjá Rosengård til að titilinn náðist í hús.

„Eskilstuna er frábær klúbbur en ég myndi segja að kröfurnar og staðallinn sè hærri í Rosengård heldur en þegar ég var í Eskilstuna. Að sama skapi er umhverfið faglegra sem hefur ýtt mér lengra sem leikmanni og það finnst mér frábært."

„Við erum búnar að vinna í að þróa àkveðinn leikstíl og leikskipulag jafnt og þétt seinustu tvö ár sem náði ekki að skila okkur neinu í fyrra enda nýtt lið og nýr þjálfari. Í ár höfum við æft eins og ljón og tekið einn leik í einu og reynt að bæta okkur eins og við getum milli leikja. Þetta hefur smollið meira og meira saman þegar líður á árið sem endaði svo með þessum titli."


Talað um bikarbölvun
Rosengård var öruggt með titilinn fyrir lokaumferðina í gær og endaði með fjórum stigum meira en Gautaborg. Rosengård hafði á síðustu tveimur leiktíðum landað bikarmeistaratitlinum en í ár datt liðið út á svekkjandi hátt gegn Íslendingaliðinu Kristianstad í riðlakeppninni. Rosengård þurfti á sigri að halda og leiddi 2-0 í leikhléi en Kristianstad jafnaði leikinn í seinni hálfleik og komst áfram í undanúrslit. Glódís var spurð út í þann leik.

„Auðvitað ömurleg tilfinning að ná ekki að vinna þann leik. Við ætluðum okkur alla leið í bikarnum en þær (leikmenn Kristianstad) voru með sterkari haus en við i þessum leik og fóru áfram. Við einbeittum okkur því alfarið að deildinni í framhaldinu."

„Annars er talað um bikarbölvun í Svíþjóð því liðið sem vinnur bikarinn hefur aldrei unnið deildina sama ár, eftir á að hyggja sættum við okkur við stóra titillinn í ár. Við ætlum svo að gera allt til að reyna að afsanna þessa bölvun á næsta ári."


Kemur í ljós hvenær næsta skref verður tekið
Glódís var spurð hvernig næstu dagar og vikur litu út hjá sér eftir tímabilið. Þá var hún spurð út í framtíðina og hvort hún væri á faraldsfæti frá Svíþjóð.

„Við fàum nokkra daga í frí i byrjun nóvember ef við erum ekki í landsliðsverkefnum sem flestir eru þó nema Ísland. Við æfum svo út nóvember og fáum svo gott jólafrí í desember þar sem við æfum sjálfar og undirbúum okkur fyrir næsta undirbúningstímabil."

„Èg er samningsbundin Rosengård út 2020 og er að fá toppþjálfun í góðum aðstæðum. Ég er mjög spennt fyrir því sem er í gangi hjá klúbbnum, þannig eins og er er ég mjög ánægð hér."

„Ég vil samt alltaf bæta mig og máta mig við enn betri leikmenn. Ég vil fá tækifæri til að æfa í enn faglegri aðstæðum. Markmiðið er að fara út í enn stærri deild og betra lið en það verður að koma í ljós hvenær það verður."


Draumurinn að spila með Íslandi á HM
Glódís var að lokum spurð út í landsliðferil sinn og hver markmið hennar með landsliðinu væru.

„Ég Held ég eigi einhverja 19 leiki í 100 leikja múrinn þannig ætli það sé ekki bara stefnan?"

„Annars er alltaf heiður að fá að spila fyrir landið sitt hvort sem það er fyrsti landsleikurinn eða sá nítugasti. Það væri algjör draumur að spila á HM með landsliðinu einhvert tímann. Næsta markmið hjà okkur er að tryggja okkur inn á EM 2020."

Athugasemdir
banner