Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. Grindavík 186 stig
4. HK 161 stig
5. Þróttur 157 stig
6. Þór 151 stig
7. Fram 138 stig
8. Selfoss 106 stig
9. Haukar 82 stig
10. Fjarðabyggð 78 stig
11. BÍ/Bolungarvík 45 stig
12. Grótta 41 stig
3. Grindavík
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 1. deild
Grindvíkingum var spáð sigri í 1. deildinni í fyrra en sú spá gekk ekki eftir. Grindvíkingar voru í botnbaráttu framan af móti en góð seinni umferð skilaði liðinu á endanum 5. sæti í deildinni. Grindvíkingum er spáð betra gengi í sumar.
Þjálfarinn: Danski varnarjaxlinn Tommy Nielsen lagði skóna á hilluna síðastliðið haust eftir að hafa hjálpað Fjarðabyggð upp úr 2. deildinni. Tommy var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjarðabyggð en þessi fyrrum varnarmaður FH hefur nú tekið við stjórnartaumunum í Grindavík. Óli Stefán Flóventsson er honum til aðstoðar en hann spilaði lengst af á sínum ferli með Grindavík, í alls konar stöðum á vellinum. Óli Stefán hefur undanfarin ár þjálfað Sindra með fínum árangri.
Styrkleikar: Grindvíkingar eru með tvo af fljótustu leikmönnum deildarinnar á köntunum í þeim Magnúsi Björgvinssyni og Jósef Kristni Jósefssyni. Grindvíkingar geta vel skorað mörk eins og þeir sýndu í Lengjubikarnum þar sem þeir settu 17 mörk. Eftir að hafa verið í toppbaráttu undanfarin tvö ár þekkir kjarni liðsins hvað þarf til að berjast um sæti í Pepsi-deildinni á nýjan leik.
Veikleikar: Grindvíkingar fengu 18 mörk á sig í Lengjubikarnum og varnarleikurinn gæti orðið hausverkur í sumar auk þess sem spænski varnarmaðurinn Rodrigo Gomes Mateo verður ekki með í byrjun móts vegna meiðsla. Markmannsstaðan er einnig spurningamerki en Óskar Pétursson hefur ákveðið að henda höskunum til hliðar í bili og því verða Maciej Majewski og Benóný Þórhallsson að berjast um stöðuna. Margir leikmenn í hópnum eru ungir að árum og hafa litla reynslu af því að spila í 1. deildinni.
Lykilmenn: Ásgeir Þór Ingólfsson, Jósef Kristinn Jósefsson og Magnús Björgvinsson.
Gaman að fylgjast með: Hákon Ívar Ólafsson er ungur og efnilegur leikmaður á miðjunni hjá Grindavík. Skoraði þrjú mörk í tíu leikjum í fyrstu deildinni í fyrra og verður í ennþá stærra hlutverki í ár.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:
![](https://fotbolti.net/imdb/newspictures/182000/182711/182711.jpg)
Komnir:
Alejandro Jesus Blzquez Hernandez frá Spáni
Ásgeir Þór Ingólfsson frá Haukum
Maciej Majewski frá Sindra
Rodrigo Gomes Mateo frá Sindra
Úlfar Hrafn Pálsson frá Haukum
Farnir:
Alexander Magnússon í Keflavík
Daníel Leó Grétarsson í Álasund
Einar Karl Ingvarsson í Val (Var á láni)
Jordan Edridge í Selfoss
Juraj Grizelj í KA
Ómar Friðriksson í Víking (Var á láni)
Óskar Pétursson í fríi frá fótbolta
Fyrstu leikir Grindavíkur:
9. maí Grindavík - Fjarðabyggð
15. maí Haukar - Grindavík
23. maí Grindavík - Grótta
Athugasemdir