Rashford, Sesko, Walker, Garnacho, Vlahovic, Cunha, Pogba, Dorgu og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 07. ágúst 2021 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 8. sæti
Everton
Everton er spáð áttunda sæti.
Everton er spáð áttunda sæti.
Mynd: Getty Images
Rafa Benitez.
Rafa Benitez.
Mynd: EPA
Dominic-Calvert-Lewin.
Dominic-Calvert-Lewin.
Mynd: Getty Images
Moise Kean.
Moise Kean.
Mynd: Getty Images
Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands, spilar með Everton.
Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands, spilar með Everton.
Mynd: Getty Images
Frá Goodison Park, heimavelli Everton.
Frá Goodison Park, heimavelli Everton.
Mynd: Getty Images
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Everton mun enda í 8. sæti ef spáin rætist.

Um liðið: Síðasta tímabil var upp og niður fyrir Everton sem endaði að lokum um miðja deild. Liðið hótaði oft á tíðum að blanda sér í Evrópubaráttuna en það tókst ekki. Þetta sumar hefur verið erfitt fyrir félagið og er meira en ein ástæða fyrir því. Fréttafólk Fótbolta.net hefur þó trú á því að liðið bæti árangur sinn frá síðustu leiktíð.

Stjórinn: Carlo Ancelotti hvarf óvænt frá störfum í sumar þegar starfið hjá Real Madrid bauðst honum. Í hans stað var Rafa Benitez ráðinn. Það var ekki vinsæl ráðning hjá stórum hluta Everton stuðningsmanna vegna þess að Benitez er fyrrum stjóri erkfifjendanna í Liverpool. Rafa er þó sigurvegari; hann vann Meistaradeildina með Liverpool 2005 og veit hvað þarf að gera til að vinna, þó hann hafi ekki gert mikið af því síðustu ár samt.

Staða á síðasta tímabili: 10. sæti

Styrkleikar: Everton missti öflugan stjóra en fær annan öfluga stjóra í staðinn. Báðir hafa þeir unnið Meistaradeildina. Á blaði er Everton með öfluga vörn og öflugan markaskorara í Dominic Calvert-Lewin. Á sínum degi getur Everton unnið hvaða lið sem er og það sást á síðustu leiktíð þegar þeir unnu lið eins og Arsenal, Liverpool og Tottenham.

Veikleikar: Everton-liðið var hörmulegt á heimavelli - algjörlega hörmulegt - og það verður að laga. Stuðningsmennirnir eru mættir aftur á völlinn og það gæti reynst Benitez illa ef liðið byrjar ekki sérstaklega vel; stuðningsmennirnir verða fljótir að snúast gegn honum. Everton verður að geta haldið boltanum betur en liðið gerði á síðasta tímabili. Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn fyrr í sumar grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Það er óvíst hversu mikið hann spilar á leiktíðinni en þetta mál hefur tekið mikið á fyrir alla sem koma að því.

Talan: 22
Everton vann sigur gegn Liverpool á Anfield á síðustu leiktíð. Það var fyrsti sigur Everton á Anfield í 22 ár. Það verður gaman að sjá þegar Benitez snýr aftur á Anfield sem stjóri Liverpool.

Lykilmaður: Dominic Calvert-Lewin
Steig mikið upp á síðustu leiktíð og skoraði 21 mark í 39 leikjum í öllum keppnum. Hann þarf að eiga svipað, ef ekki betra tímabil, ef Everton á að ná góðum árangri. Öflugur í loftinu og hann gæti barist um markakóngstitilinn ef allt fer á besta veg.

Fylgist með: Moise Kean
Sóknarmaður sem lenti í miklum vandræðum á sínu fyrsta tímabili með Everton. Hann virtist ekki alveg ná að aðlagast enska boltanum. Hann fór á láni til Paris Saint-Germain á síðustu leiktíð þar sem hann stóð sig vel. Það býr mikið í þessum leikmanni, hann þarf bara að ná að sýna það.

Komnir:
Asmir Begovic frá Bournemouth - Óuppgefið
Andros Townsend frá Crystal Palace - Frítt
Demarai Gray frá Bayer Leverkusen - 1,7 milljónir punda

Farnir:
Muhamed Besic - Án félags
Theo Walcott til Southampton - Frítt
Matthew Pennington til Shrewsbury - Frítt
Robin Olsen - Án félags
Yannick Bolasie - Án félags
Josh Bowler til Blackpool - Frítt
Callum Connolly til Blackpool - Frítt
Joshua King til Watford - Frítt
Dennis Adeniran til Sheffield Wednesday - Frítt
Bernard til Sharjah FC - Óuppgefið
Beni Baningime til Hearts - Á láni

Fyrstu leikir:
14. ágúst, Everton - Southampton
21. ágúst, Leeds - Everton
28. ágúst, Brighton - Everton

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8. Everton, 122 stig
9. Leeds, 121 stig
10. West Ham, 117 stig
11. Aston Villa, 109 stig
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner