„Það er allt í standi. Þetta er allt samkvæmt plani og undirbúningurinn hefur gengið vel. Við erum til í slaginn," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í dag en Ísland hefur leik á EM kvenna gegn Frökkum á þriðjudag.
Um síðustu helgi var æfingaferð á Selfossi þar sem hópurinn þjappaði sér saman fyrir komandi mót.
„Þetta var rosalega góð helgi. Hún var erfið, við vorum þreytt á sunnudagskvöldið, en þetta var rosalega gaman," sagði Freysi en hann tók meðal annars lagið fyrir framan hópinn.
„Ég stóð mig örugglega meiriháttar vel. Við bjuggum til band. Rakel Hönnudóttir var á gítar og Ási (Ásmundur Harladsson, aðstoðarþjálfari) var á trommum. Við tókum eitthvað þjóðhátíðarlag. Rakel valdi lagið og ég negldi það."
Freyr er jafnvel til í að taka lagið fyrir alla þjóðina ef Ísland fer alla leið á EM. „Ef ég kem niður í þyrlusigi á Arnarhól þá skal ég taka það," sagði Freyr léttur í bragði.
Auk Frakka eru Austurríki og Sviss með Íslandi í riðli en tvö lið komast áfram í 8-liða úrslitin.
„Íslenskir veðbankar segja 50/50 en erlendir veðbankar segja 1/4. Það eru bara einhverjar tölur. Við erum klár og neglum þetta. Við vitum hvað við stöndum fyrir og hvað við getum. Við vitum líka að andstæðingarnir eru feykisterkir. Við sýnum hvað Íslendingar eru klikkaðir og gerum þetta bara," sagði Freyr ákveðinn.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir