James Milner, leikmaður Liverpool, nýtur nú lífsins á Íslandi þessa dagana á meðan alþjóðlegt landsleikjahlé er.
Milner snæddi kvöldverð á veitingastaðnum Tryggvaskála á Selfossi nú í kvöld. Eyþór Atli Finnsson, fyrrum markvörður Stokkseyrar og stuðningsmaður Tottenham hitti Milner á Selfossi í kvöld.
Það fór vel á með þeim en samkvæmt Eyþóri var létt yfir hinum síunga Englendingi.
Á þeim stutta tíma sem þeir hittust náði Eyþór þó að koma því á framfæri við Milner að hann væri stuðningsmaður Tottenham og væri vægast sagt ekki hrifinn af Liverpool. Milner gat hlegið að því.
Milner hefur leikið 28 leiki fyrir Liverpool á leiktíðinni en hann á enn eftir að skora. Ekki liggur ljóst fyrir hve lengi Milner dvelur á landinu en ætla má að hann hafi notið íslensku vorblíðunnar í dag.
Hér til hliðar má sjá mynd af þeim Eyþór Atla og James Milner áður en þeir snæddu á Tryggvaskála í kvöld.