
„Það var kannski svekkjandi mörk sem við fáum á okkur, fráköst og einhver vitleysa en heilt yfir voru þær betri þannig þetta var sanngjarnt," sagði landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir eftir tap gegn Þýskalandi í undankeppni HM.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 2 Þýskaland
„Við töpuðum fyrir betra liði. Leikplanið okkar var gott, mér fannst við gefa allt sem við áttum í þetta en þær voru einfaldlega bara betri en við í dag. Auðvitað kemur það ekkert á óvart, við vissum að við værum að fara að mæta góðu liði og það þurfti náttúrlega allt að ganga upp. Við þurftum allar að eiga leik lífsins til að þetta myndi ganga."
Það var þokkalegur gangur á liðinu fyrstu 30 mínúturnar en síðan tóku þýsku stelpurnar yfir og á brattann var að sækja.
„Já mér fannst þetta nokkuð jafnt svona í fyrri hálfleik. Við vorum með vindinn í bakið, þessi séríslenski vindur sem hefur svo mikil áhrif á fótboltaleik og í seinni hálfleik þá bara held ég við höfum ekki skapað okkur mikið og þær áttu bara restina af leiknum."
„Það var mjög góð stemming í hálfleik og við töluðum um að þetta væri bara eitt mark, og ég meina við þurftum auðvitað bara jafntefli þótt við æltuðum okkur sigur þannig það var alls ekki þannig að við hefðum ekki trú á verkefninu. Við töluðum líka þannig að ef við myndum lenda 2-0 undir þá myndum við taka upp vængbakverðina og spila þriggja manna línu þannig við reyndum virkilega að teygja okkur eins langt og við gátum en því miður þá voru þær bara með control á leiknum og voru bara betri."
Framhaldið er strembið en ekki er öll von úti enda mikilvægur leikur á þriðjudag framundan.
„Það tekur náttúrulega allavegana nokkra tíma að jafna sig á tapi en við verðum að taka eins lítinn tíma og mögulegt er og ég held bara fyrst og fremst ná okkur andlega eftir tap. Ég held að við séum allar það professional að við komum kroppunum í lag en fyrst og fremst að breyta höfðinu og hugsa um næsta leik sem verður þá algjör úrslitaleikur. Við náttúrlega hugsuðum bara um þennan leik og Freysi er auðvitað búinn að skipuleggja næsta leik en við leikmenn bara búnir að einblína á þennan leik þannig maður verður að breyta aðeins hausnum."
Aðspurð hvort þær yrðu klárar í næsta leik sagði Gugga þær að sjálfsögðu vera klárar.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir