Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   þri 04. júlí 2023 20:18
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikarinn: KA í úrslit eftir ótrúlegan leik
Tvenna frá Höskuldi nægði ekki fyrir Breiðablik.
Tvenna frá Höskuldi nægði ekki fyrir Breiðablik.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ívar Örn skoraði gríðarlega mikilvæg mörk fyrir KA, bæði í uppbótartímanum og vítaspyrnukeppninni.
Ívar Örn skoraði gríðarlega mikilvæg mörk fyrir KA, bæði í uppbótartímanum og vítaspyrnukeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pætur, sem er nýkominn úr agabanni, var næstum því skúrkurinn hjá KA en endaði uppi sem hetjan eftir jöfnunarmark á 117. mínútu.
Pætur, sem er nýkominn úr agabanni, var næstum því skúrkurinn hjá KA en endaði uppi sem hetjan eftir jöfnunarmark á 117. mínútu.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

KA 3 - 3 Breiðablik
1-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('56)
1-1 Klæmint Olsen ('87)
1-2 Höskuldur Gunnlaugsson ('92)
2-2 Ívar Örn Árnason ('97)
2-3 Höskuldur Gunnlaugsson ('105, víti)
3-3 Pætur Joensson Petersen ('117)
3-1 í vítaspyrnukeppni


Lestu um leikinn: KA 6 -  4 Breiðablik

KA er búið að tryggja sér þátttöku í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þar sem Akureyringar mæta annað hvort ríkjandi meisturum Víkings R. eða KR.

KA fékk Breiðablik í heimsókn á Akureyri í undanúrslitaleiknum í dag og úr varð hörkuviðureign, þar sem staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik sem einkenndist af mikilli baráttu.

Síðari hálfleikurinn var hins vegar stórskemmtilegur þar sem heimamenn tóku forystuna á 56. mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson var þar á ferðinni þegar hann fylgdi skoti Jakobs Snæs Árnasonar með marki.

Blikar vöknuðu til lífsins eftir þetta mark og settu mikla pressu á heimamenn á Akureyri. Sú pressa skilaði sér loksins á vægast sagt brjáluðum lokakafla þar sem þrjú mörk litu dagsins ljós.

Hallgrímur Mar Steingrímsson byrjaði veisluna á góðu stangarskoti en Blikar skoruðu í kjölfarið af því. Varamaðurinn Klæmint Olsen axlaði þá fyrirgjöf frá Viktori Karli Einarssyni í netið á 87. mínútu og stefndi allt í framlengingu fyrst staðan var orðin 1-1.

Blikar ætluðu þó ekki að sætta sig við jafnteflið og skoraði Höskuldur Gunnlaugsson laglegt mark beint úr aukaspyrnu í uppbótaríma. KA-menn voru gríðarlega ósáttir með aukaspyrnudóminn en staðan var orðin 1-2 og Blikar sannfærðir um að vera með sigurinn í greipum sér, en svo var ekki.

Ívar Örn Árnason átti eftir að jafna leikinn með marki á lokasekúndu uppbótartímans eftir darraðadans í vítateig Blika í kjölfar hornspyrnu. Því var leikurinn framlengdur.

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik framlengingarinnar og átti Jason Daði Svanþórsson skot í slá áður en Blikar fengu dæmda vítaspyrnu. Davíð Ingvarsson var á undan Pætri Petersen í boltann og fiskaði vítaspyrnu en dómurinn er afar umdeildur. Höskuldur steig á vítapunktinn og var Kristijan Jajalo nálægt því að verja góða vítaspyrnu Höskulds, en boltinn endaði í netinu.

Vítaspyrnan var dæmd undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar og var lítið að frétta í síðari hálfleik, en þó tókst heimamönnum að gera annað jöfnunarmark. Í þetta skipti var það Pætur Petersen sem skoraði með skalla eftir frábæran undirbúning frá Ingimari Torbjörnssyni Stöle. Pætur bætti þar með upp fyrir vítaspyrnubrotið á 105. mínútu.

Meira var ekki skorað og var því blásið til vítaspyrnukeppni, sem var álíka dramatísk og leikurinn sjálfur.

Þar varði Anton Ari Einarsson fyrstu spyrnuna frá Elfari Árna Aðalsteinssyni og svo varði Kristijan Jajalo frá Gísla Eyjólfssyni.

Hallgrímur Mar og Viktor Karl Einarsson skutu báðir yfir úr sínum spyrnum en svo skoraði Ívar Örn Árnason áður en Klæmint Olsen þrumaði boltanum yfir.

Rodri tryggði KA sigur með marki úr sinni vítaspyrnu og eru Akureyringar búnir að tryggja sig í úrslitaleik Mjólkurikbarsins eftir ótrúlega viðureign.


Athugasemdir
banner
banner
banner