„Við erum nokkuð sáttir með frammistöðu drengjanna í þeim leik," sagði Lúðvík Gunnarsson, aðstoðarþjálfari U19 landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net fyrir æfingu liðsins í T'Qali á Möltu í dag.
Fyrst var hann spurður út í leikinn gegn Spáni, fyrsta leik liðsins í lokakeppni Evrópumótsins.
Fyrst var hann spurður út í leikinn gegn Spáni, fyrsta leik liðsins í lokakeppni Evrópumótsins.
„Þau sem horfðu á þann leik sáu það að þetta spænska lið er ógnarsterkt. Við gáfum þeim alvöru leik. Það að menn séu svekktir að hafa tapað honum segir ansi margt. Þetta var bara flottur leikur á margan hátt."
Hvað hefði liðið þurft að gera til að fá eitt stig eða þrjú stig úr þeim leik?
„Það eru lítil atriði. Við hefðum getað gert hlutina aðeins einfaldari. Það hefðu allir þurft að eiga sinn besta dag. Því miður eru Spánverjarnir það sterkir að það tókst ekki að ná í þrjú stig þar," segir Lúðvík.
Menn voru verulega svekktir eftir fyrsta leikinn. „Það segir svolítið um hugarfar þessara drengja; þeir vilja ná langt og vilja ná árangri. Það er frábært og þannig viljum við hafa það. Þeir voru svekktir."
Á morgun mæta strákarnir Norðmönnum í sínum öðrum leik í riðlinum. Það er gríðarlega mikilvægur leikur.
„Norðmenn eru með fínt lið og það verður gaman að mæta þeim. Þetta verður hörkuleikur, jafnari leikur mögulega. Það eru allir klárir og allir spenntir. Við ætlum auðvitað að gera mjög vel þar og fá eitthvað út úr því. Möguleikarnir eru fínir, þetta eru 50/50 leikir á móti þessum liðum. Þó að Spánn sé ógnarsterkt lið þá áttum við alltaf séns. Ég á von á því að það verði líka þannig á móti Norðmönnum. Þetta eru allt góð lið og við erum eitt af þeim. Við gefum öllum liðum leik og þetta verður hörkuleikur."
Það eru forréttindi
Lúðvík er einnig þjálfari U16 og U17 landsliðs karla, ásamt því að vera aðstoðarþjálfari U19 landsliðsins. Áður en hann tók til starfa hjá KSÍ þá þjálfaði hann hjá ÍA og Kára á Akranesi.
Hann segir það lærdómsríkt að vinna með Ólafi Inga Skúlasyni, aðalþjálfara liðsins, og að fá að vera í kringum U19 landsliðið á þessu skemmtilega móti.
„Það eru forréttindi að fá að vinna með svona hópi og þessu teymi sem er hérna. Óli er mjög flottur þjálfari. Hann þekkir leikinn og skilur leikinn virkilega vel. Þó ég sé búinn að þjálfa lengi þá er ég enn að læra. Maður lærir helling af honum. Það eru forréttindi að fá að vera með þessu liði, þessum strákum og þessu teymi," sagði Lúðvík að lokum.
Athugasemdir