Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   þri 07. september 2021 14:29
Elvar Geir Magnússon
Jói Berg: Hefur verið hálf skrítið allt saman
Icelandair
Jóhann Berg á æfingu í dag.
Jóhann Berg á æfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jói Berg var fyrirliði gegn Rúmeníu.
Jói Berg var fyrirliði gegn Rúmeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður segir að þessi landsleikjagluggi sé sá sérstakasti sem hann hefur upplifað á öllum sínum árum í liðinu.

Bæði vegna ytri aðstæðna, umræðunnar í samfélaginu og einnig vegna þess hvernig hópurinn er samsettur en margir lykilmenn undanfarinna ára eru ekki með.

„Þetta hefur verið hálf skrítið allt saman en eina sem við getum gert er að fara út á völlinn og gera okkar besta. Það gera það allir," segir Jóhann Berg.

„Umtalið í kringum liðið hefur verið eins og það er. Það er erfitt fyrir suma á meðan aðrir taka þessu betur. Það er mikið aldursbil í liðinu en þetta eru frábærir strákar, frábærir í fótbolta."

„Ungu leikmennirnir eiga eftir að læra heilmikið á því að vera í kringum eldri leikmennina og spila þessa leiki. Það eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að gera til að ná í úrslit, við erum ekki eins og Þýskaland og Portúgal. Því fyrr sem þeir læra inn á það verður betra."

„Þetta er nýtt lið, ungir strákar og við erum að læra inn á hvorn annan. Þjálfararnir hafa verið með flotta fundi og sýnt hvað við eigum að gera og til hvers er ætlast af íslenska landsliðinu á þessu leveli. Við erum að spila á móti mjög góðum liðum og við þurfum að gera betur en í síðasta leik."

Er leikfær fyrir leikinn á morgun
Ísland mætir Þýskalandi á morgun klukkan 18:45 og segir Jóhann Berg að staðan á sér sé góð. Hann er klár í slaginn.

„Staðan er nokkuð góð. Ég æfði í gær og í dag, við sjáum hvort ég nái í liðið. En jú það er allt í góðu," segir hann.

Jóhann var ekki með í jafnteflisleiknum gegn Norður-Makedóníu og fylgdist með þeim leik úr stúkunni.

„Maður sá það síðustu 20 mínúturnar hvernig við eigum að spila og við verðum að gera það stærri hluta leiksins. Fyrri hálfleikur var ekki nægilega góður, það vantaði tempó og pressan hjá okkur var ekki alveg að ganga. Mörk breyta leikjum og þannig varð raunin þarna. Við höfum farið mjög vel yfir þetta allt saman."

Hann tók spilaði leikinn gegn Rúmeníu og bar þá fyrirliðabandið.

„Það var gríðarlega gaman og forréttindi að fá að vera í þeirri stöðu. Öllum ungum leikmönnum dreymir um að leiða land sitt út í svona leik. Maður hafði gaman að, auðvitað hefði maður viljað að úrslitin væru betri en það kemur," segir Jóhann Berg Guðmundsson.
Athugasemdir
banner
banner