
Fyrrum landsliðskonurnar, Helena Ólafsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir, eru að sjálfsögðu mættar á Evrópumótið í Manchester til að fylgja kvennalandsliðinu eftir, en þær eru vissar um að Ísland vinnur Belgíu í kvöld.
Þetta eru tvær af reyndustu leikmenn í sögu íslenska boltans en Guðlaug lék með ÍA, KR, Breiðabliki og Völsungu á ferlinum og lék 56 landsleiki en Helena var liðsfélagi hennar í bæði KR og ÍA, þar sem þær unnu fjölmarga titla. Helena lék 8 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Þær eru vel gíraðar fyrir fyrsta leik Íslands gegn Belgíu í kvöld.
„Bara mjög vel og brjáluð stemning fyrir þessum leik. Þetta er æðislegt, best og svo skemmtilegt," sagði Guðlaug við Fótbolta.net.
„Ég er hrikalega spennt og líður eins og lítill stelpu. Ég er ofboðslega spennt fyrir deginum og veit að þetta á eftir að ganga vel," sagði Helena en þær hafa hitt marga gamla liðsfélaga í undirbúningnum.
„Þetta er eins og 'reunion'. Við erum að hitta gamlar fótboltakempur sem spiluðu á móti okkur, með okkur og þetta er ólýsanlegt og ógeðslega skemmtilegt," sagði Helena.
Þær eru sammála um það að þetta sé besta landslið Íslands frá upphafi.
„Þetta er örugglega besta landslið sem hefur verið," sagði Guðlaug og tók Helena undir.
;,Ég verð að taka undir það og held þetta sé besta liðið. Við erum með samansafn af ungu leikmönnum sem hafa prófað stóra sviðið eins og með Sveindísi Jane sem hefur spilað fyrir framan 90 þúsund manns. Við erum með fleiri leikmenn í Bayern München og annað, ungu leikmennirnir eru að taka miklu stærri skref en við gerðum áður og þetta mun bara fara lengra."
En hvernig fer leikurinn í kvöld?
„Hann fer 3-1 fyrir Íslandi. Sveindís skorar tvö og Sara eitt," sagði Guðlaug en Helena var öllu hógværari.
„Ég er öllu hógværari eins og alltaf. 1-0 og Sveindís skorar eða leggur upp. Það er eftir langt innkast en ég veit ekkert hver klárar það," sagði Helena í lokin.
Athugasemdir