
„Þeir hafa verið mjög góðir," sagði Arnór Ingvi Traustason, leikmaður íslenska landsliðsins, við Fótbolta.net aðspurður út í hvernig síðustu dagar hafa verið. Ísland hefur síðustu daga æft í litlum fallegum í Austurríki, bæ að nafni Schruns.
Leikið verður gegn Sviss í St. Gallen í Þjóðadeildinni á laugardaginn en Ísland heldur yfir til Sviss í dag.
Þetta er fyrsta verkefni Íslands undir stjórn nýrra þjálfara, Svíans Erik Hamren og Freys Alexanderssonar.
„Það koma auðvitað einhverjar breytingar og nýjar áherslur, en þær eru ekki miklar. Það er ekki ástæða til að breyta rosalega mikla, en þegar það kemur nýr þjálfari í brúnna þá kemur hann með sínar áherslur. Það hefur verið að fara yfir það á þessum dögum."
„Erik Hamren er mjög flottur. Hann er búinn að vera með okkur í þrjá eða fjóra daga og hingað til er hann mjög flottur karl og ég hlakka til að vinna með honum."
„Við getum talað saman á sænsku, eins og flestallir hérna, það kunna flestir sænsku," sagði Arnór en hann spilar með stærsta félaginu í Svíþjóð, Malmö.
Malmö á rosalegu skriði í Svíþjóð
Arnór kveðst vera í góðu standi fyrir komandi leiki gegn Sviss og Belgíu. Hann er búinn að vera að spila mikið með Malmö sem hefur verið á miklu skriði upp á síðkastið í sænsku úrvalsdeildinni eftir erfiða byrjun.
„Ég er búinn að vera að spila reglulega með Malmö. Það hefur gengið vel og við höfum ekki tapað leik eftir HM."
„Við tókum þjálfaraskipti eftir HM og breyttum leikkerfi. Það var farið yfir áherslur sem við vorum lélegir í og við bættum þær. Það hefur ekkert klikkað einhvern veginn og við ætlum að halda því áfram."
Leikurinn gegn Sviss er á laugardag. Arnór vonast til að fá einhverjar mínútur í þeim leik.
„Vill maður ekki alltaf fá að spila? Það veltur á þjálfaranum að spila manni, maður virðir þá ákvörðun sem hann tekur."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir