
„Þetta er alveg yndislegt, maður vaknar á morgnana og verður glaður að horfa út um gluggann," sagði Ari Freyr Skúlason, bakvörður íslenska landsliðsins, þegar fréttamaður Fótbolta.net ræddi við hann eftir æfingu landsliðsins í Schruns í Austurríki. Bærinn er gríðarlega fallegur að sögn Ara og getur undirritaður svo sannarlega kvittað undir það.
Þetta er fyrsta verkefni Svíans Erik Hamren og Freys Alexanderssonar með liðinu. Ísland er að fara að spila við Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni. Leikið verður gegn Sviss í St. Gallen á laugardaginn, en Ísland fer yfir til Sviss í dag.
„Hann (Erik Hamren) er fínn, það er þægilegra að tala við hann á sænsku en ensku. Það er mikið af fundum. Hann vill ekki breyta miklu, en vill samt koma með sínar áherslur í liðið."
„Þetta er mjög svipað og við höfum verið að gera. Hann vill kannski spila aðeins meiri fótbolta, en ekkert kjaftæði heldur."
Næsti leikur er eins og áður segir gegn Sviss. Ari gæti fengið að takast á við Xherdan Shaqiri, stærstu stjörnu Sviss í leiknum. Shaqiri er á mála hjá Liverpool.
„Aftur, já," segir Ari en hann hefur áður fengið að takast á við leikmanninn með íslenska landsliðinu. „Þeir eru með nokkra mjög góða leikmenn og góða liðsheild, en það erum við líka með. Ég held að þetta verði jafn leikur, góður leikur."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir