Miðjumaðurinn danski Lasse Petry gekk í dag í raðir Vals frá Nordsjælland í Danmörku en hann lék á láni með Lyngby í sumar.
„Ég hef um nokkurn tíma heyrt af áhuga Vals á mér og fannst það áhugavert. Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað og hlakka til að aðlagast," sagði Petry við Fótbolta.net eftir undirskriftina í dag.
„Ólafur Kristjánsson var þjálfarinn minn hjá Nordsjælland og ég spilaði þar með Adam Erni Arnarsyni, Rúnar Alex Rúnarssyni og Guðmundi Þórarinssyni. Auðvitað heyrði ég í þeim fyrst og spurði þá út í deildina og Val. Þeir voru mjög jákvæðir og sögðu að Valur væri eitt af stærstu félögunum og spilaði besta fótboltann. Þeir sögðu mér að Valur reyni að spila boltanum með grasinu og mér líkar það."
Petry spilaði undnfarna mánuði með Lyngby og spilaði mikið með liðinu. Hann langaði í nýja áskorun sem hann fær hjá Val.
„Evrópukeppnin er svo stór bónus. Ég sá leik Vals gegn Rosenborg í fyrra þar sem þeir voru mjög nálægt því að komast áfram. Vonandi náum við að vinna eitthvað af stóru liðunum í sumar."
Athugasemdir