Rashford, Sesko, Walker, Garnacho, Vlahovic, Cunha, Pogba, Dorgu og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 09. ágúst 2021 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 5. sæti
Leicester
Leicester vann Samfélagsskjöldinn á dögunum.
Leicester vann Samfélagsskjöldinn á dögunum.
Mynd: EPA
Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers.
Mynd: EPA
Youri Tielemans og Jamie Vardy eru lykilmenn.
Youri Tielemans og Jamie Vardy eru lykilmenn.
Mynd: Getty Images
Ndidi er frábær á miðsvæðinu.
Ndidi er frábær á miðsvæðinu.
Mynd: Getty Images
Kasper Schmeichel, einn besti markvörður deildarinnar.
Kasper Schmeichel, einn besti markvörður deildarinnar.
Mynd: Getty Images
King Power Stadium, heimavöllur Leicester.
King Power Stadium, heimavöllur Leicester.
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin hefst næstkomandi föstudag. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Leicester er spáð fimmta sætinu.

Um liðið: Það hefur verið frábær uppbygging í gangi hjá Leicester síðustu ár; allt frá því liðið varð Englandsmeistari fyrir fimm árum síðan hefur liðið náð að byggja vel ofan á það. Félagið er vel rekið og með gáfaða menn á bak við tjöldin sem hafa gert frábærlega í leikmannamálum. Leicester hefur síðustu tvö ár verið í Meistaradeildarbaráttu en kastað því frá sér. Tímabilið í fyrra svíður örugglega enn þar sem liðið var mjög lengi í Meistaradeildarsæti en missti það í hendur Liverpool undir blálokin.

Stjórinn: Brendan Rodgers er einn besti stjóri deildarinnar, án nokkurs vafa. Var rekinn frá Liverpool eftir að hafa verið mjög nálægt því að stýra liðinu til Englandsmeistaratitils. Hann fór til Celtic í Skotlandi þar sem hann vann flesta leiki og lærði mikið. Hann mætti svo til Leicester og hefur gert virkilega vel. Mjög fær stjóri sem kemur alltaf vel fyrir.

Staða á síðasta tímabili: 5. sæti

Styrkleikar: Það er búið að smíða frábært lið í Leicester. Miðjan er sérstaklega góð með Youri Tielemans, Wilfred Ndidi og James Maddison. Það væru öll lið deildarinnar, kannski fyrir utan Manchester City, til í að hafa þessa miðju. Það er búið að bæta enn við leikmannahópinn sumar með ferskum leikmönnum. Patson Daka er mjög spennandi Boubakary Soumare kemur með stál inn á miðsvæðið. Þjálfarinn er frábær og það er mjög vel staðið að liðinu.

Veikleikar: Liðið var ömurlegt í föstum leikatriðum á síðustu leiktíð, bæði varnarlega og sóknarlega. Liðið fékk á sig sex mörk úr skyndisóknum sem er frekar mikið. Liðið hefur ekki höndlað pressuna á lokasprettinum síðustu ár og verður að læra að gera það, til að taka síðasta skrefið og komast í Meistaradeildina.

Talan: 20
Liðið vann 20 deildarleiki á síðustu leiktíð. Það var næst besti árangur í sögu félagsins í efstu deild. Sá besti kom auðvitað árið 2016 þegar félagið varð enskur meistari.

Lykilmaður: Youri Tielemans
Stórgóður miðjumaður sem hentar frábærlega inn í þetta lið með Wilfred Ndidi við hliðina á sér. Stórkostlegur sendingamaður og líka einnig með öflugan skotfót, eins og hann sýndi í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea á síðustu leiktíð.

Fylgist með: Patson Daka
Eldsnöggur sóknarmaður sem raðaði inn mörkunum með Salzburg í Austurríki á síðustu leiktíð. Daka er bara 22 ára gamall en hann skoraði 34 mörk í 42 keppnisleikjum með Salzburg á síðustu leiktíð, þar á meðal 27 mörk í 28 deildarleikjum. Á pappír líta þetta út fyrir að vera frábær félagaskipti og gæti hann verið rándýr í framtíðinni.

Komnir:
Patson Daka frá Salzburg - 23 milljónir punda
Boubakary Soumaré frá Lille - 17 milljónir punda
Ryan Bertrand frá Southampton - Frítt

Farnir:
Wes Morgan - Án félags
Matty James - Án félags
Christian Fuchs til Charlotte - Frítt
Josh Knight til Peterborough - Óuppgefið
Admiral Muskwe til Luton - Óuppgefið
Daniel Iversen til Preston - Á láni

Fyrstu leikir:
14. ágúst, Leicester - Wolves
23. ágúst, West Ham - Leicester
28. ágúst, Norwich - Leicester

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5. Leicester, 153 stig
6. Tottenham, 141 stig
7. Arsenal, 139 stig
8. Everton, 122 stig
9. Leeds, 121 stig
10. West Ham, 117 stig
11. Aston Villa, 109 stig
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner