
„Ég er svekktur og varð meira pirraður eftir að hafa horft á brotið aftur og rauða spjaldið," sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari Íslands eftir 4 - 1 tap gegn Portúgal í framlengdum leik í umspili um sæti á HM 2023 í kvöld.
Lestu um leikinn: Portúgal 4 - 1 Ísland
„Mér finnst þetta óskiljanlegur dómur," hélt hann áfram en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk að líta rauða spjaldið og dæmt var víti á Ísland á 55. mínútu.
„Hún hefði hugsanlega geta dæmt víti en snertingin var ekki mikil. Hún henti sér niður en þær gerðu það svosem út um allan völl allan leikinn. Þetta var aldrei rautt spjald og hún var ekki viljandi að toga hana niður. Þær rekast saman og við það verður þetta fall. Hún hefði hugsanlega geta dæmt víti á þetta en aldrei rautt spjald."
Fannst honum halla á Ísland í dómgæslunni í kvöld?
„Ég veit það ekki, hausinn á mér er á þannig flugi að ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég var alveg viss um að hún myndi dæma þetta mark sem við skoruðum af í VAR eftir að Guðný togaði í hana þarna. Hún dæmir brot á það og ekkert óeðlilegt við það. Svo er fúlt að fá á sig mark og lenda undir en við svöruðum og komum af krafti inn í leikinn strax eftir rauða spjaldið og gerðu það heilt yfir vel."
Nánar er rætt í Steina í spilaranum að ofan en hann ræðir þar veikindi Söru Bjarkar, að byrjunarliðið hafi lekið út og fyrirkomulagið á umspilinu. Hann segir liðið fá frí í nóvember þó það sé leikjagluggi þá.