
„Við verðum ekki jafnmikið með boltann og erum undir það búnar," sagði Cecilía Rán Rúnarsdóttir markvörður íslenska landsliðsins við Fótbolta.net í Le Mans í Frakklandi.
Liðið gerði markalaust jafntefli við Sviss á föstudagskvöldið en mætir í kvöld Frökkum hér í Le Mans.
„Þær eru með mjög góða einstaklinga en ekki jafngott lið og við erum með. Þetta verður hörkuleikur. Það er erfitt að finna lið með betri liðsheild en íslenska liðið. Það hefur fleytt okkur langt hingað til og heldur áfram næstu árin."
Cecilía var búin að festa sig í sessi sem aðalmarkvörður Íslands en var lengi frá vegna meiðsla á síðasta ári. Á sama tíma stóðu Fanney Inga Birkisdóttir og Telma Ívarsdóttir sig frábærlega í markinu. Cecelía var svo í byrjunarliðinu gegn Sviss á föstudaginn en var hún farin að óttast að hún gæti misst sætið þegar hún sneri aftur?
„Ég segi það ekki, ég var bara heima að hugsa um að koma mér til baka svo ég studdi þær og var ánægð að sjá þegar þær stóðu sig vel því það þýðir að íslenska liðið stendur sig vel líka. Ég vildi bara koma til baka og gera mitt besta en svo velur þjálfarinn bara liðið og ég get ekki gert neitt í því."
Nánar er rætt við hana í spilaranum að ofan og þar ræðir hún tímann sinn með Inter á Ítalíu en þar hefur hún verið frábær og oft haldið hreinu.
Athugasemdir