
Landsliðskonan Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ræddi við Fótbolta.net eftir 1-1 jafntefli við Austurríki í Ried í dag.
Lestu um leikinn: Austurríki 1 - 1 Ísland
Ólöf eða Olla eins og hún er oftast kölluð byrjaði á bekknum í leiknum í dag en kom inn í síðari hálfleiknum.
Hún segir það hafa verið vonbirgði að hafa ekki landað öllum þremur stigunum í dag.
„Mér fannst leikurinn frekar leiðinlegur í fyrri hálfleik. Það var lítið að gerast hjá báðum liðum, eða þangað til þær skoruðu. Mér fannst við skapa færi í fyrri hálfleik engu að síður þó þær hafi verið smávegis með yfirhöndina.
„Síðan fáum við þetta víti sem Glódís klárar frábærlega og þá kemur 'momentum' í okkar lið og þá eru vonbrigði að ná ekki að klára leikinn því við vorum á svo góðu róli í endann. Við erum með boltann í horninu þegar hann flautar af. Ég er ekki sátt með dómgæsluna ef ég á að koma því að einhvern veginn,“ sagði Olla við Fótbolta.net.
Hún vill auðvitað byrja leiki en hún kom með öfluga innkomu af bekknum og var hársbreidd frá því að tryggja sigurinn á lokasekúndunum.
„Að sjálfsögðu. Manni langar alltaf að vera inn á og reyna að klára færin, en leiðinlegt að það hafi ekki komið í dag," sagði Olla en þegar hún var spurð út í færið sitt í lokin sagði hún: „Ohhh, þetta var fínn skalli í minningunni, en held að þetta hafi bara verið góð varsla og markvörðurinn vel staðsettur. Það hefði verið sætt að setja hann inn í blálokin en það datt ekki í dag.“
Liðin mætast aftur á þriðjudag og fer sá leikur fram á Laugardalsvelli, en hún er spennt að spila á heimavelli gegn sterku liði Austurríkis.
„Bara vel. Það er sterkt að koma hingað og fá jafntefli fyrir framan marga áhorfendur og stemning. Ég vona að það verði enn meiri stemning heima og held að það hjálpi okkur að vera heima á móti liði eins og Austurríki. Mér finnst við vera betri og það vantaði ótrúlega lítið upp á að fá stigin þrjú.“
Fjöldi færa íslenska liðsins komu Ollu ekki á óvart en það er eiginlega ótrúlegt að liðið hafi aðeins skorað eitt mark.
„Í raun ekki en ég vildi að við hefðum náð að nýta þau. Við vissum hvar svæðin voru og fórum vel yfir það. Þannig við bjuggumst alveg við að fá færi en það vantaði upp á herslumuninn,“ sagði hún ennfremur en hún talar einnig um Kötlu Tryggvadóttur í viðtalinu hér fyrir ofan.
Athugasemdir