
„Ég er svekktur með úrslitin en ég er ánægður með frammistöðuna," sagði Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U19 landsliðsins, eftir 1-2 tap gegn Spáni í fyrsta leik í lokakeppni Evrópumótsins í kvöld.
„Mér fannst strákarnir gera þetta frábærlega. Þetta eru pirrandi mörk sem við fáum á okkur, óþarfa. En vinnslan og hugrekkið sem strákarnir sýndu, seinni hálfleikur var mjög flottur. Þetta er súrsætt," sagði þjálfarinn.
„Mér fannst strákarnir gera þetta frábærlega. Þetta eru pirrandi mörk sem við fáum á okkur, óþarfa. En vinnslan og hugrekkið sem strákarnir sýndu, seinni hálfleikur var mjög flottur. Þetta er súrsætt," sagði þjálfarinn.
Lestu um leikinn: Ísland U19 1 - 2 Spánn U19
Mörkin voru klaufaleg af hálfu íslenska liðsins. „Á þessu stigi kemstu ekki upp með neitt og strákarnir vita það alveg. Þetta er partur af þessu og við lærum af þessu. Við reynum að betrumbæta og gera hlutina betur þannig að við komum svo í veg fyrir þessa hluti."
Spánn er líklega sigurstranglegasta liðið á mótinu. „Spænsk landslið eru á heimsklassa í nánast öllum aldursflokkum. Þeir eru með gríðarlega öflugt og gott lið, vel spilandi og þeir eru frábærir að hreyfa sig án bolta."
Liðinu fór að líða betur inn á vellinum þegar líða fór á leikinn en það voru kannski taugar í byrjun leiks.
„Það væri mjög óeðlilegt ef það væri ekki," sagði Ólafur en þessir strákar voru að spila sinn fyrsta leik á stórmóti í kvöld. „Við vildum vinna okkur inn í leikinn, leyfa strákunum að komast yfir fyrstu tíu mínúturnar og ná skrekknum úr sér. Seinni hálfleikurinn var mjög góður og það var góður bragur á liðinu."
Þjálfarinn segir að liðið taki helling með sér úr þessum leik en næsti leikur er algjör lykilleikur í riðlinum. Strákarnir okkar mæta Noregi á föstudaginn og þar þarf sigur.
Athugasemdir