„Ferðalagið var bara fínt, við flugum til Amsterdam og tókum síðan rútu hingað. Okkur líður vel hérna, það er gott veður og flott hótel," sagði Hildur Antonsdóttir, miðjumaður íslenska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net.
Stelpurnar dvelja nú á landamærum Hollands og Þýskalands, en á morgun eiga þær leik við Þjóðverja í undankeppni Evrópumótsins.
Hildur þekkir sig vel á svæðinu en hún spilar með Fortuna Sittard í Hollandi.
„Ég bý bara í 20 mínútna akstursfjarlægð frá hótelinu. Ég er nálægt mínu öðru heimili hérna og mér líður mjög vel."
Fortuna Sittard er sem stendur í fjórða sæti hollensku úrvalsdeildarinnar og er liðið þá í undanúrslitum í bikarnum. Hildur er ein þriggja íslenskra leikmanna hjá félaginu en þar eru einnig María Catharina Gros Ólafsdóttir og Lára Kristín Pedersen.
„Deildin er búin að vera smá erfið fyrir okkur en við reynum bara að fókusa á bikarinn. Vonandi hjálpar það þá okkur eitthvað að klára tímabilið almennilega."
„Það er mikil íslensk stemning og við yfirgnæfum stundum klefann með íslenskunni. Það er geggjað að hafa tvo Íslendinga með mér í liðinu og það hjálpar ótrúlega mikið. Við erum allar með sama umboðsmanninn og þau leita kannski til hans (þegar þau eru að leita að leikmönnum). Það er mjög gott að vera með Láru og Maríu í liði. Ég er með Láru beint fyrir aftan mig og Maríu á kantinum."
Að taka næsta skref
Ísland byrjaði undankeppni EM á því að vinna 3-0 sigur gegn Póllandi síðasta föstudag. Svo er það líklega erfiðasta verkefnið í riðlinum er við mætum Þýskalandi á morgun.
„Við tókum æfingu í morgun á vellinum og það gekk allt vel. Við erum tilbúnar í morgundaginn," sagði Hildur.
Stelpurnar mættu Þýskalandi í Þjóðadeildinni og töpuðu þá báðum leikjunum. Útileikurinn var afar erfiður.
„Það var gífurlegur munur á okkur á milli leikja í Þjóðadeildinni. Við töpum stórt í Þýskalandi en leikurinn heima var mun betri. Við vorum inn í þeim leik. Við ætlum að taka næsta skref á móti þeim og vinna þær núna," segir þessi öflugi miðjumaður. „Við ætlum að mæta þeim á fullu gasi og láta þær finna fyrir því."
Athugasemdir