Renna svolítið blint í sjóinn
„Þetta leggst vel í mig eins og allir leikir. Evrópuleikir eru aðeins öðruvísi, eru eins og bikarleikir nema þú hefur tvo leiki. Þetta er alvöru lið, þegar þú ert kominn í Evrópukeppni þá þurfa menn að gera sér grein fyrir að þú ert að spila á móti góðum liðum. Þetta er flott fótboltalið og ég á von á hörkuleik," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, við Fótbolta.net í dag.
Á morgun tekur Valur á móti albanska liðinu Vllaznia á N1 vellinum. Um er að ræða fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar, seinni leikurinn fer svo fram ytra eftir viku.
Á morgun tekur Valur á móti albanska liðinu Vllaznia á N1 vellinum. Um er að ræða fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar, seinni leikurinn fer svo fram ytra eftir viku.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 2 Vllaznia
Þýski þjálfarinn Thomas Brdaric tók við undir lok síðasta tímabils. Liðið spilaði sex leiki undir hans stjórn, tveir þeirra unnust, tveir töpuðust og tvisvar varð jafntefli. Vllaznia endaði í þriðja sæti albönsku deildarinnar í vor.
„Það voru töluverðar breytingar á milli leikjanna, spiluðu 3-5-2, 4-4-2 og 4-3-3, svolítið að flakka á milli og breytingar á liðsvali."
„Ég horfði svo á liðið spila einn æfingaleik, gegn liðinu sem Breiðablik spilaði við í fyrra: Zrijnski Mostar og unnu 1-0. Það er lið sem er gott lið. Það eru teknískir strákar í Vllaznia, ég átti kannski von á því að þeir væru svolítið latir, seinir til baka, en þeir líta vel út. Þeir eru þéttir og eru fljótir að koma sér niður í stöður ef þeir tapa bolta. Þeir spiluðu 4-4-2 í síðasta leik og eru með marga fína fótboltamenn."
„En við erum líka með hörkulið og ef við ætlum að fara áfram þá þurfum við að eiga tvo góða leiki. Það er alveg möguleiki á því. Ef við spilum tvo góða leiki þá eigum við góða möguleika."
Arnar ræddi um upplýsingaöflunina um andstæðinginn fyrir leikinn. „Það er bara einn æfingaleikur sem við höfum getað nálgast af þessu tímabili og því ekki hægt að sjá eitthvað mynstur. Við förum því svolítið blint inn í þennan leik þó að við búumst við 4-4-2. Þetta eru góðir og tiltölulega kvikir fótboltamenn sem vilja spila mikið af stuttum sendingum. Það eru allir leikir í Evrópu erfiðir. Liðin frá Íslandi hafa undanfarin ár verið að ná góðum úrslitum, við viljum koma okkur í næstu umferð."
Fyrri leikurinn er á heimavelli og það er mikilvægt að ná í góð úrslit þar. „Það hjálpar að ná góðum úrslitum heima. Það verður líklega 30 stiga hiti eða meira á þeirra heimavelli og það mun örugglega gefa þeim smá auka. Leikurinn verður miklu erfiðari ef við náum ekki í úrslit á morgun, en það verður samt möguleiki að vinna úti. Lykilatriðið er að fá góða frammistöðu, menn eigi toppleik og að allir séu að leggja sig fram. Auðvitað væri gott að fara með 1-0 eða 2-0 forystu, en ef við horfum á leikinn hjá Víkingi í gær, miðað við frammistöðuna eiga Víkingar að geta farið svolítið brattir út. Það voru algjörir yfirburðir frá upphafi til enda. Ég held að það sé ekki það mikill munur þar á milli heimaleiks og útileiks. Ég held að leikurinn á morgun verði jafnari heldur en leikurinn á Víkingsvelli í gær," sagði Arnar.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst. Arnar ræddi einnig um markvarðamálin og var spurður hvort að Valur ætlaði að láta til sín taka á félagaskiptamarkaðnum.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 19:00.
Athugasemdir