Víkingur er með fimm stiga forystu á toppi Bestu deildarinnar þegar siglt er inn í landsleikjahlé. Liðið vann 3-1 sigur gegn Fram í kvöld. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik og heimamenn sigldu sigrinum í höfn eftir hlé.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 Fram
„Þetta hefur verið rosalegt leikjaálag, við tókum aukaleik í umferðinni og svo þessir bikarleikir. Menn hafa verið dauðþreyttir og maður sér ekki sama ferskleika," segir Arnar.
„Ég er kröfuharður á strákana, mér finnst við ekki hafa verið fullkomnir þó stigasöfnunin sé mjög góð. Það hafa komið góðir spilkaflar en líka kaflar sem eru ekki góðir."
Arnar segir að þó hópurinn sé öflugur þá megi lítið út af bregða og segir að félagið verði að skoða það að styrkja sig í sumarglugganum.
„Við þurfum að hafa augun opin, það er svo mikið að spila upp á og svo kemur Evrópukeppnin. Við þurfum að skoða hvort það séu leikmenn fáanlegir sem geta styrkt okkur. Þetta þarf þá að vera mjög öflugur leikmaður."
Í viðtalinu ræðir Arnar einnig um Loga Tómasson og metið sem hann var að missa á Akranesi.
Athugasemdir