
"Þetta var fyrst og fremst gríðarlega sætur sigur. Við höfum spilað betur í sumar en það var mikill karakter og mikil trú sem sigldi þessu yfir línuna. Þetta eru risastór þrjú stig fyrir okkur," sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 1-0 sigur gegn Þrótti í kvöld.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 0 Þróttur R.
"Það er mikið sjálfstraust í hópnum og það sást í dag. Við höfðum allan tímann trú á að við myndum klára þetta. Það er eitthvað sem við höfum búið til í sumar með góðri spilamennsku og góðum sigrum."
Umtalaðasta atvik leiksins er þegar Þróttarar vildu að Rasmus Christiansen, varnarmaður Aftureldingar fengi rautt spjald. Töldu þeir að hann hafi verið aftasti maður þegar hann braut af sér en leikmaðurinn slapp með gult spjald. "Ég skal viðurkenna að ég er ekki búinn að horfa á þetta aftur en í mómentinu fannst mér Elmar Kári vera samsíða honum og það eru 30-35 metrar í markið. Reglan segir að ef þú ert að ræna mótherja augljósu marktækifæri sé þetta rautt og mér fannst þetta ekki augljóst marktækifæri. Auðvitað er ég samt með gleraugu í aðra áttina og þeir segja pottþétt annað Þróttararnir."
Afturelding er á toppi deildarinnar og mikill meðbyr með liðinu um þessar mundir. Magnús segir ákaflega skemmtilegt að fá að þjálfa uppeldisfélagið sitt á tímum sem þessum. "Ekki spurning. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að búa til undanfarin ár. Frábærir sjálfboðaliðar í kringum þetta, frábær leikmannahópur og frábært þjálfarateymi sem er með mér í þessu. Við erum að búa til gott umhverfi en við viljum meira. Mótið er langt en við erum ánægðir með þetta hingað til. Auðvitað er þetta geggjað gaman."
Umgjörðin hjá Aftureldingu er skemmtileg og í dag var hægt að fá sér Aftureldingartattoo á meðan leikurinn stóð yfir. Að lokum var Magnús spurður að því hvort hann ætlaði að skella sér í flúr eftir viðtalið. "Nei ég hugsa að ég láti það vera. Einhverjir strákar voru að spá í þessu niðrí í klefa en ég held ég sleppi þessu í bili. Ég er ekki mikill tattoo-maður."
Allt viðtalið við Magnús má sjá í spilaranum hér að ofan.