Guðmundur Magnússon var valinn maður leiksins en hann hjálpaði Fram að vinna mikilvægan sigur gegn HK í kvöld. Gummi kom Fram yfir í leiknum 2-1 og var öflugur í fremstu víglínu.
Lestu um leikinn: Fram 3 - 2 HK
„Við vorum hörmulegir í síðasta leik og skulduðum. Seinasti leikur var lágpunktur og við ákváðum að spyrna okkur frá botninum," sagði Guðmundur eftir leikinn en Fram tapaði fyrir FH 4-0 í síðustu umferð.
„Veðrið setti strik í reikninginn. HK er með hörkulið, baráttulið. Þetta var ekki fallegasti fótboltinn en við vorum ofan á. Það fór mikil orka í þennan leik."
Eins og áður sagði var Guðmundur maður leiksins í kvöld.
„Ég er að finna mig mun betur en í byrjun tímabils. Ég nýtti fríið í að fara í sprautu í hnénu, ég var búinn að vera smá aumur og í basli með að halda mér gangandi."
Á kafla á tímabilinu var Guðmundur á bekknum og umræða um að hann væri að taka illa í það.
„Ég get tekið það á mig að vera skapmaður, ég vil mikið. Mér var kannski ekki að ganga vel persónulega og tók reiðina kannski út á rangan hátt. Við spjölluðum bara saman og útkljáðum það," segir Guðmundur Magnússon.
Athugasemdir