Vill fá heimaleik og sá leikur mun vinnast
Búi Vilhjálmur Guðmundsson, þjálfari KFK, var hæstánægður með það að vera kominn í undanúrslit Fótbolti.net bikarsins eftir sigur á Kára í kvöld. 4. deildar liðið gerði sér lítið fyrir og sló út 3. deildar liðið í 8-liða úrslitunum.
Lestu um leikinn: KFK 3 - 2 Kári
„Liðsheildin og baráttan skóp þetta hjá okkur. Þetta var ekki okkar besti leikur í sumar, en þetta var ótrúlega skemmtilegur leikur á að horfa, eins og þeir sem lesa textalýsinguna sjá, fullt af færum," sagði Búi.
KFK var eina 4. deildar liðið sem eftir var í keppninni í 8-liða úrslitunum. Var mikið horft á þessa keppni í byrjun tímabils?
„Fyrir lið í 3. og 4. deildinni þá er þessi keppni auka innspýting, fleiri leikir. Nú erum við búnir að bæta helling við leikjafjöldann okkar í sumar, bara skemmtilegt og margir sem fá að spila."
Búi er ekki með neinn óskamótherja í undanúrslitunum. „Ég vil bara fá heimavígið, alveg sama hverjir það verða, við vinnum þá."
KFK er í 3. sæti í 4. deildinni og er markmiðið skýrt þar.
„Við ætlum okkur upp, það er klárt mál. Það var mikið af leikmönnum sem komu seint inn í mótið og vorum lengi að trekkja okkur í gang, en við erum helvíti flottir núna."
„Klárlega (erum við sáttir með staðinn sem liðið er á), við erum besta liðið í Kópavogi eins og staðan er," sagði Búi og brosti.
Athugasemdir