„Gríðarlega mikilvæg þrjú stig en frammistaðan kannski ekki uppá 10, við höfum spilað miklu betri leiki. Virkilega sætt að fá þrjú stig þrátt fyrir að hafa ekki spilað góðan leik," sagði Dalvíkingurinn Nökkvi Þeyr Þórisson leikmaður KA eftir dramatískan sigur á Keflavík í Dalvík í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 3 - 2 Keflavík
Nökkvi Þeyr var bjargvættur KA en hann hefur byrjað tímabilið af krafti í ár. Skoraði eitt gegn ÍBV og tvö í kvöld. Hann skoraði sitt fyrsta mark í september á síðasta tímabili. Hvað hefuru verið að gera öðruvísi.
„Æfa meira, leggja meira á sig og æfa auka og það skilar sér, það sýnir sig."
KA er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina.
„Þetta er fullkomin byrjun. Ef við horfum á frammistöður þá var Leiknisleikurinn erfiður en við fáum þrjú stig þar og eitt mark. Góð frammistaða í Eyjum svo hér ekki góð frammistaða en þrjú stig. Við þurfum að halda áfram að byggja ofan á þetta og undirbúa okkur fyrir næsta leik sem er KR sem er gríðarlega erfiður leikur, sérstaklega því þeir eru á grasi og aldrei auðvelt að fara í Frostaskjól," sagði Nökkvi að lokum.