
Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson lék í gær sinn fyrsta A-landsleik þegar hann spilaði allan leikinn gegn Tékkum. Hann er ágætlega sáttur með hvernig honum gekk.
„Það var gaman að fá að kynnast strákunum inni á vellinum. Það er allt annað að æfa og að spila," segir Rúnar Alex. „Leikurinn var fínn að mörgu leyti. Við hefðum klárlega getað fengið meira út úr þessum leik."
Rúnar Alex var í boltanum í öðru marki Tékka og segir að það hafi verið svekkjandi að sjá hann leka inn.
„Hann skaut af níu metra færi eða eitthvað, ef ég næ að verja er þetta mjög góð varsla. Það var samt svekkjandi að fyrst ég var svona mikið í honum að ég hafi ekki náð að ýta honum út."
Markvörðurinn ungi lét vel í sér heyra í leiknum í gær og það heyrðist ansi vel enda sárafáir á vellinum.
„Ég er vanur því að spila fyrir fáa áhorfendur í Danmörku en það var furðulegt að spila þennan leik. Það var smá Lengjubikarsfílingur í þessu," segir Rúnar Alex en viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir