Manchester City
Enska úrvalsdeildin hefst í kvöld! Líkt og síðustu ár, þá kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Manchester City endar í efsta sæti og vinnur deildina ef spáin rætist.
Um liðið: Manchester City er ríkjandi Englandsmeistari. Þeir stungu af eftir áramót á síðustu leiktíð, litu ekki um öxl eftir að hafa komist á flott skrið. Það er hætta á að það gerist aftur, sérstaklega ef Harry Kane kemur til félagsins. City á enn eftir að vinna Meistaradeildina en liðið fór alla leið í úrslit þar á síðustu leiktíð. Niðurstaðan var þó mikið svekkelsi eftir tap gegn Chelsea.
Stjórinn: Pep Guardiola hefur stýrt City frá 2016. Það er óhætt að fara að tala um hann sem einn besta knattspyrnustjóra sögunnar. Hefur unnið alla þá titla sem hann mögulega getur unnið, en það er langt síðan hann vann Meistaradeildina; það gerðist síðast fyrir tíu árum síðan þegar hann var stjóri Barcelona.
Staða á síðasta tímabili: 1. sæti
Styrkleikar: Hvar á að byrja? Það eru að minnsta kosti tveir menn í öllum stöðum og þeir eru nánast allir í heimsklassa. Þeir eru með einn besta stjóra sögunnar og í sumar er bara verið að bæta í. Jack Grealish, sem var einn besti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð, er mættur og mögulega er landsliðsfyrirliði Englendinga, Harry Kane, á leiðinni. Það eru sigurvegarar í þessu liði sem þekkja það vel að vinna ensku úrvalsdeildina. Það er hægt að telja upp ótal marga styrkleika, ótal marga.
Veikleikar: Er liðið búið að jafna sig á því að tapa úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili? Það var þungt högg. Liðið fór hægt af stað á síðustu leiktíð og það er spurning hvort liðið eigi efni á því núna þegar liðin í kring eru orðin sterkari. Það vantar níu í liðið, sóknarmann sem getur skilað 20+ deildarmörkum. Kane er sá maður, en kemur hann?
Talan: 10
City fékk á sig tíu vítaspyrnur á síðasta leiktíð. Það var það næst mesta í deildinni.
Lykilmaðurinn: Kevin de Bruyne
Belgíski töframaðurinn er að sjálfsögðu lykilmaðurinn í þessu liði. FourFourTwo útnefnir Phil Foden sem lykilmann liðsins en það er algjört rugl. De Bruyne er besti leikmaður liðsins og besti leikmaður deildarinnar. Algjörlega frábær miðjumaður sem öll lið í heminum væru til í að hafa í sínu liði.
Fylgist með: Jack Grealish
Einn besti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð þegar hann var í Aston Villa. Núna er hann mættur í City og það verður gaman að sjá hvernig hann höndlar það stökk. Enginn vafi á því að hann er stórkostlegur leikmaður en núna er meiri samkeppni um stöður og meiri pressa á hann að gera eitthvað, í ljósi verðmiðans.
Komnir:
Kayky frá Fluminense - 8,6 milljónir punda
Darío Sarmiento frá Estudiantes - 5,2 milljónir punda
Jack Grealish frá Aston Villa - 100 milljónir punda
Farnir:
Angeliño frá RB Leipzig - 16,4 milljónir punda
Kayky til Fluminense - Á láni
Sergio Agüero til Barcelona - Frítt
Eric Garcia til Barcelona - Frítt
Daniel Grimshaw til Blackpool - Frítt
Taylor Harwood-Bellis til Anderlecht - Á láni
Marlos Moreno til Kortrijk - Á láni
Jack Harrison til Leeds - 11 milljónir punda
Adrián Bernabé til Parma - Frítt
Filip Stevanovic til Heerenveen - Á láni
Lukas Nmecha til Wolfsburg - 11 milljónir punda
Darío Sarmiento til Girona - Á láni
Arijanet Muric til Adana Demirspor - Á láni
Ivan Ilic til Hellas Verona - 6,4 milljónir punda
Fyrstu leikir:
15. ágúst, Tottenham - Man City
21. ágúst, Man City - Norwich
28. ágúst, Man City - Arsenal
Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
Spáin:
1. Man City, 196 stig
2. Man Utd, 183 stig
3. Liverpool, 182 stig
4. Chelsea, 180 stig
5. Leicester, 153 stig
6. Tottenham, 141 stig
7. Arsenal, 139 stig
8. Everton, 122 stig
9. Leeds, 121 stig
10. West Ham, 117 stig
11. Aston Villa, 109 stig
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir