
Það var að vonum ánægður þjálfari Vals Pétur Pétursson sem mætti til viðtals við Fótbolta.net sem Mjólkurbikarmeistari eftir 2-1 sigur Vals á Breiðablik í úrslitaleik á Laugardalsvelli fyrr í kvöld. Um leikinn sagði Pétur.
„Mér fannst þetta góður leikur tveggja góðra liða sem vildu vinna leikinn. Mér fannst við aðeins ofaná og aðeins betri. En bikarleikir geta snúist fram og til baka og sem betur fer skoruðum við tvö en þegar við fengum mark á okkur í lokin þá veit maður aldrei.“
Um það hvað réði í raun úrslitum að Valur stóð uppi sem sigurvegari í leiknum sagði Pétur.'
„Mér fannst við ná einhverjum tökum, bæði eftir einhverjar tuttugu mínútur í fyrri hálfleik sem og í hluta seinni hálfleiks þar sem við náum góðum sóknum og erum hættulegar. Við nýttum þessi færi sem við fengum þá.“
Bikarmeistaratitilinn er kærkominn fyrir Val en liðið hefur aðeins einu sinni á síðustu 10 árum farið í úrslit. Það var árið 2022 þar sem liðið varð einnig bikarmeistari eftir sigur á Breiðablik 2-1.
„Þetta er besti titilinn. Þetta er í annað sinn sem við komum hingað síðan að ég tók við og sem betur fer unnið í bæði skiptin og það er bara frábært.“
Sagði Pétur en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan
Athugasemdir