„Auðvitað er svekkjandi að gera jafntefli eftir að hafa komist 1-0 yfir, en þetta eru tvö hörkugóð lið og við vorum á útivelli. Það er erfitt að segja það núna að ég sætti mig við eitt stig, en það er gott að fá fjögur stig úr þessari ferð," sagði landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir eftir 1-1 jafntefli gegn Tékklandi í undankeppni HM 2019 í dag.
Lestu um leikinn: Tékkland 1 - 1 Ísland
Ísland vann magnaðan sigur á Þýskalandi á laugardaginn og fer heim með fjögur stig eftir tvo mjög erfiða útileiki. Ísland er eina taplausa liðið í riðlinum eins og staðan er núna.
Það fyrsta sem Guðbjörg þurfti að tækla í leiknum var höfuðhögg. Það þurfti að sauma nokkur spor í höfuðið á Guðbjörgu, en hún hélt áfram þrátt fyrir það. Smelltu hér til að sjá atvikið.
„Ég held ég hafi ekki verið búin að snerta boltann (þegar þetta gerðist), þetta var mín fyrsta snerting í leiknum," segir Guðbjörg, en þetta hafði að sjálfsögðu áhrif á hana.
„Auðvitað sló þetta mig út af laginu. Mér fannst ég passív eftir þetta, en kom mér aftur inn í leikinn."
„Mér fannst eins og þetta hefði átt að vera spjald á hana. Mér fannst ég klárlega með boltann fyrst."
„Ég var saumuð í hálfleik," sagði hún.
„Það er langt síðan ég hef spilað svona leik. Þetta var bardagi út um allt, ég var ekki sú eina sem ég fékk högg á hausinn. Þær voru búnar að leikgreina okkur vel og ætluðu að vera harðari en við erum, en mér fannst við svara þeim. Dómarinn missti aðeins tökin á þessu."
Sjáðu viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir