„Maður er hundfúll með þetta, að tapa á heimavelli og skora ekki mark og fá á sig tvö," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA eftir tap liðsins gegn ÍBV í Bestu deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 2 ÍBV
„Gamla góða klisjan, við fáum færi í þessum leik til að skora í báðum hálfleiknunum. Við hefðum átt að skora úr þessum færum í fyrri hálfleik, þetta hefði þróast öðruvísi ég er alveg viss um það en það þýðir ekki að vera væla yfir því eftir á," sagði Jóhann.
„Við áttum ekkert frábæran leik, vorum svolítið að flýta okkur og þröngva þessu í gegn. Þrátt fyrir það áttum við góð færi og óþolandi að hafa ekki gert betur og fá eitthvað útúr þessu fyrir framan fólkið sitt."
ÍBV náði forystunni strax í upphafi seinni hálfleiks.
„VIð vorum löðrunguð ansi illa strax í byrjun. Við fáum aðeins högg í magann en þetta elfdi þær mikið og þær gengu á lagið. Þetta hafði of mikil áhrif og ágætis dæmi um það hvernig mörk geta breytt leikjum," sagði Jóhann.