Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar var ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans sigraði Linfield í forkeppni Sambandsdeildarinnar 2-0 á Samungvellinum.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 0 Linfield
„Mér fannst þetta bara öflugur leikur, mér fannst liðið vera bara mjög gott í dag. Mér fannst við vera skarpir, við hreyfðum boltan hratt. Í fyrri hálfleik fannst mér vanta aðeins upp á færslurnar eins og við vildum hafa þær sóknarlega. Auðvitað hjálpaði að þeir klikkuðu úr vítinu sínu, en mér fannst við alveg verðskulda þennan sigur. Liðið var bara helvíti öflugt."
Stjarnan mætir Linfield aftur í seinni leik liðanna og því var það mjög sterkt hjá þeim að ná inn öðru markinu.
„Ég held að það sé mjög öflugt, við vitum ekki alveg hvaða aðstæður bíða okkur þar. Eitt mark er svo lítið á 90 mínútum og við þurfum auðvitað að vera tilbúnir í það sem bíður okkar. Við þurfum líka vera tilbúnir í að vera aggressívir og passa okkur að vera ekki að falla eitthvað of mikið. Þannig það var mjög mikilvægt (að skora tvö) og auðvitað hefði verið gaman ef við hefðum nýtt stöðurnar sem við komumst í, í seinni hálfleik aðeins betur. En ég er mjög ánægður með liðið."
Stjarnan var með öll völd á vellinum fram að u.þ.b. fertugustu mínútu. Þá kom kafli þar sem Stjörnumenn voru í miklum vandræðum varnarlega.
„Við fórum að falla svolítið niður. Aftasta línan okkar fór að falla mikið niður og þá í raun og veru bjóðum við þeim bara upp á að komast nær teignum og sækja á okkur þar. Sem er ekki það sem við viljum, því að leikurinn þeirra er bara fyrirgjafir. Þar getur vel verið að það hafi verið stress. Menn hafi bara viljað sigla þessu inn í hálfleikinn, en það hjálpar ekki að 'droppa'. Þannig að við þurfum að passa upp á það."
Stjarnan hefur verið upp og niður í sínu gengi í deildinni, en svona sigur í Evrópu keppni getur hjálpað þeim í komandi leikjum.
„(Sigurinn getur hjálpað) mjög mikið. Það hvað við vorum 'solid' í dag og öflugir á boltan, hjálpar bara mjög mikið. Við þurfum auðvitað að byrja á að rífa okkur niður síðan aftur. Við kannski byrjum á morgun, af því að við eigum annan leik eftir og það verður ekki auðvelt."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.