„Ég er gríðarlega spenntur. Þetta er skemmtilegur leikur að spila," segir Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkinga, fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KA á laugardaginn.
Nikolaj er farinn að þekkja það vel að spila í bikarúrslitaleiknum en hann hefur núna verið hluti af sigurliðinu í Mjólkurbikarnum þrisvar sinnum.
„Ég held að þú verðir ekki vanur þessari tilfinningu. Þú þarft að vera spenntur og með smá í maganum þegar þú ferð inn á völlinn. Þú verður líka að njóta þess að spila svona leiki."
Hann býst við erfiðum leik gegn KA og segir þá erfitt lið að spila gegn. Nikolaj segir að strákarnir vilji fylgja á eftir stelpunum í Víkingi með því að vinna Mjólkurbikarinn.
„Já, klárlega. Þær eru búnar að eiga stórkostlegt tímabil og vinna allt. Þær eiga mikið hrós skilið. Við vinnum vonandi tvennuna og þá getum við fagnað vel eftir tímabilið."
Var hann að búast við því fyrir tímabilið að Víkingar myndu eiga eins gott tímabil og þeir hafa átt?
„Við höfum sýnt það síðustu ár að liðið okkar er mjög gott og okkur finnst gaman að vinna allt. Þetta ár hefur verið algjörlega frábært. Liðsframmistaðan og allt saman hefur verið mjög gott."
Víkingar hafa verið bikarmeistarar í meira en 1400 daga. Hvað gerir Víking að svona miklu bikarliði?
„Mér finnst við vera góðir í þessum erfiðu leikjum. Þessi bikarkeppni hefur verið frábær fyrir okkur. Ég held að við vinnum á laugardaginn og við stefnum á að halda bikarnum í 300 daga í viðbót."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir