Stjarnan hefur áhuga á að fá Ólaf Inga Skúlason, miðjumanninn reynda, í sínar raðir. Þetta viðurkenndi Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Garðabæjarliðsins, í viðtali eftir 1-1 jafntefli gegn Grindavík í Fótbolta.net mótinu í kvöld.
Ólafur, sem er 33 ára, hefur spilað lengi í atvinnumennskunni, á Englandi, Belgíu og Svíþjóð áður en hann hélt til Tyrklands þar sem hann leikur nú fyrir Karabukspor í tyrknesku úrvalsdeildinni.
Ólafur hefur sagt líkur á að hann spili hér á Íslandi næsta sumar.
„Ólafur Ingi er frábær fótboltamaður og ef hann er á leið til Íslands þá skoðum við það hvort það sé möguleiki að hann vilji koma til okkar. Það eru sennilega mörg önnur lið á eftir honum," segir Rúnar sem segir að Ólafur viti af áhuga Stjörnunnar.
Hólmbert byrjar á núllpunkti
Rúnar segist ánægður með núverandi hóp, hann sé góð blanda af yngri og eldri leikmönnum.
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði mark Stjörnunnar í leiknum í kvöld. Hólmberti gekk illa í markaskorun á síðasta tímabili en hefur fundið leiðina í markið í undanförnum leikjum.
„Hann byrjar á núllpunkti hjá okkur núna á nýju tímabili. Hann hefur verið að æfa vel og er kominn í betra stand. Við bindum vonir við hann," segir Rúnar en í viðtalinu tjáir hann sig nánar um hópinn og leikinn í kvöld.
Athugasemdir